139. löggjafarþing — 30. fundur,  17. nóv. 2010.

fjölmiðlar.

198. mál
[18:38]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætla að nota tækifærið og þakka fyrir umræðuna um frumvarpið. Mig langar að gera örfáar athugasemdir. Sú fyrsta snýr að Ríkisútvarpinu. Mér finnst í sjálfu sér eðlilegt að sérlögin um Ríkisútvarpið verði skoðuð í kjölfar þessarar lagasetningar. Ég lít svo á að með þessu frumvarpi sé lagður til heildarramminn um fjölmiðlaumhverfið. Undir þau lög mun Ríkisútvarpið falla. Mér finnst eðlilegt að sérlögin um Ríkisútvarpið verði skoðuð í kjölfarið. Ég lít líka svo á að mikilvægt sé að gera þetta í ákveðnum áföngum. Það hefur verið mín sýn. Mér hefur fundist mikilvægt að hinum almenna ramma væri náð fram fyrst og síðan yrði almannafjölmiðillinn í eigu íslensks almennings tekinn til sérstakrar skoðunar.

Hvað varðar þær athugasemdir sem hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir kom fram með um tengingu og hvort eðlilegra væri að flétta lög um fjölmiðla meira saman við lög um fjarskipti, þá var það rætt talsvert og skoðað í aðdraganda frumvarpssmíðarinnar. Horfið var frá slíkum hugmyndum í ljósi þess að fjölmiðlar hafa þetta sérstaka valdsvið sem hv. þingmenn hafa margir hverjir nefnt í dag, og við köllum stundum fjórða valdið. Það felst m.a. í gríðarlega mikilvægu aðhaldshlutverki. Ekki er færi á að fella það undir lög um fjarskipti sem eðli máls samkvæmt snúast fremur um tæknilegar hliðar málsins. Það er ástæðan fyrir því að gerð eru sérstök lög um fjölmiðla en ekki farið í að fella þetta inn í lög um fjarskipti. Við tökum þó sérstaklega fram í greinargerð að við sjáum þarna ýmsa samlegð og hugsanlegt er að fjölmiðlanefnd geti nýtt sér ýmsa aðstöðu þar, til að mynda hjá Póst- og fjarskiptastofnun. Ég lít á þetta sem ákveðið faglegt markmið sem mér finnst mikilvægt að við reynum að ná fram með lagasetningu sem þessari.

Hvað varðar valdsvið fjölmiðlanefndar þykist ég vita að það verði að sjálfsögðu rætt í nefndinni en ég hef að sjálfsögðu gert nefndinni þegar grein fyrir fyrirhuguðum breytingum úr stofu í nefnd. Ég leit svo á að þar væri fyrst og fremst verið að koma til móts við þau rök sem höfðu heyrst að ný stofnun á erfiðum tímum væri kannski ekki viðeigandi, sérstaklega í ljósi þess að stofnanir hafa tilhneigingu til að stækka. Þá tilhneigingu er kannski erfiðara að heimfæra upp á stjórnsýslunefndir, jafnvel þó að þær hafi ákveðið umfang, starfsmannahald, og markmiðin sem á að ná séu óbreytt sem og eftirlitshlutverkið sem nefndin á að hafa.

Ég get tekið undir hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur að stundum er óþarfi að festa í lög að fólk hagi sér eins og menn, eins og ég held að hv. þingmaður hafi sagt. Hér leitumst við auðvitað við að sýna fram á að nefndin sem stjórnsýslunefnd sé sjálfstæð með því að setja ákveðnar kröfur um hæfi nefndarmanna. Það getur verið hins vegar að þarna sé of langt gengið og ég legg það í hendur hv. menntamálanefndar að skoða það. Þarna erum við fyrst og fremst að reyna að tryggja ákveðinn faglegan grundvöll undir starf nefndarinnar en höfum þetta þó opið að því leyti að reynsla getur auðvitað verið ansi víðfeðmt hugtak í lagatexta og kannski ekki skilgreint neitt sérstaklega.

Mig langar að taka undir það sem hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir nefndi um tilskipunina, ég held að ágætt væri að skoða hvað felst í henni og hverju er bætt við. Það er vissulega rétt að frumvarpið er umtalsvert víðtækara en sjálf hljóð- og myndmiðlunartilskipunin. Menn hafa farið ýmsar leiðir í að benda á hver sé að banna og boða, hvort það sé menntamálaráðherra eða Evrópusambandið sem ætli sér að fara í þann leik. En ég held að þetta væri mjög gott og er eitt af því sem ætti að vera tiltölulega auðvelt að veita hv. menntamálanefnd upplýsingar um í vinnu hennar með málið.

Að lokum langar mig sérstaklega að koma því á framfæri að ég er hjartanlega sammála því sem hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir ræddi, um nauðsyn þess að fjölmiðlar setji sér málstefnu. Inn í frumvarpið er komin grein þar sem segir:

„Fjölmiðlar sem miðla hljóði og texta á íslensku skulu í því skyni marka sér málstefnu.“

Ég held satt að segja að ekki sé vanþörf á. Þetta er auðvitað í samræmi við þingsályktunina sem við samþykktum um íslenska málstefnu og ég held að það sé ekki vanþörf á að fjölmiðlar, eins og ýmsar aðrar stofnanir í samfélaginu, marki sér málstefnu. Ég veit reyndar og vonast til að við höfum tækifæri til að ræða þau mál betur síðar í vetur þegar ég mun leggja fram frumvarp til laga um stöðu íslenskrar tungu og táknmáls.

Að öðru leyti þakka ég fyrir umræðuna.