139. löggjafarþing — 30. fundur,  17. nóv. 2010.

meðhöndlun úrgangs.

186. mál
[18:51]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um meðhöndlun úrgangs.

Í frumvarpinu sem ég mæli hér fyrir eru lagðar til breytingar á lögum um meðhöndlun úrgangs og samhliða nauðsynlegar breytingar á lögum um úrvinnslugjald og lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Með frumvarpinu er lagt til að innleidd verði tilskipun um meðhöndlun úrgangs frá námuiðnaði og tilskipun um rafhlöður og rafgeyma með hliðsjón af nýrri tilskipun um úrgang sem verður hluti af EES-samningnum.

Meginefni frumvarpsins varðar drykkjarvöruumbúðir, rafhlöður og rafgeyma og úrgang frá námuiðnaði og breytingar til einföldunar á framkvæmd mála varðandi raf- og rafeindatæki. Í frumvarpinu eru m.a. lögð til þau nýmæli að útgáfa starfsleyfa fyrir alla meðhöndlun úrgangs aðra en förgun úrgangs og meðhöndlun spilliefna verði í höndum heilbrigðisnefnda. Þessi ákvæði eiga að einfalda framkvæmd og skýra verkaskiptingu milli heilbrigðisnefnda og Umhverfisstofnunar.

Við samningu frumvarpsins var höfð til hliðsjónar ný úrgangstilskipun, tilskipun 2008/98/EB, um úrgang. Þessi tilskipun verður hluti af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Unnið verður að innleiðingu úrgangstilskipunarinnar hér á landi á næsta ári en að ósk Sambands íslenskra sveitarfélaga var ákveðið að frumvarpið tæki til ákvæða tilskipunarinnar er varða úrgangsáætlanir til að gera lagaákvæði er lúta að slíkum áætlunum skýrari og einfalda framkvæmd þeirra.

Stærsti efnisþáttur frumvarpsins lýtur að upptöku skilakerfis með framleiðendaábyrgð fyrir einnota drykkjarvöruumbúðir sem leysi af hólmi núverandi fyrirkomulag. Í frumvarpinu er í 6. gr. fjallað um drykkjarvöruumbúðir og meðhöndlun þeirra en lög um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur falla úr gildi 1. janúar 2011, sbr. lög nr. 135/2009.

Frá árinu 1989 hefur verið sérstakur farvegur fyrir meðhöndlun einnota drykkjarvöruumbúða þegar sett voru sérstök lög utan um málaflokkinn Um nokkurt skeið hefur verið fyrirhugað að færa framkvæmd vegna drykkjarvöruumbúða í þá átt sem önnur úrgangsmeðhöndlun er í dag, þ.e. til aukinnar framleiðendaábyrgðar, og setja drykkjarvöruumbúðir í svipað kerfi og það kerfi sem raf- og rafeindatæki eru í. Í því ljósi er gert ráð fyrir að rekstur Endurvinnslunnar hf. breytist. Vegna þessa er í frumvarpinu lagt til að sett verði framleiðendaábyrgð á drykkjarvöruumbúðir í stað núverandi skilagjalds og umsýsluþóknunar. Þannig verði framleiðendum og innflytjendum gert kleift að starfrækja skilakerfi á eigin ábyrgð sem uppfylli sett markmið samkvæmt lögum um meðhöndlun úrgangs.

Lagt er til að framleiðandi og innflytjandi drykkjarvöruumbúða beri ábyrgð á þeim drykkjarvöruumbúðum sem framleiddar eru hér á landi eða fluttar inn og eru settar á markað og seldar hér á landi. Í þessari ábyrgð felst að þeir skuli fjármagna og tryggja meðhöndlun drykkjarvöruumbúðaúrgangs. Framleiðendur og innflytjendur drykkjarvöruumbúða skulu uppfylla skyldur sínar með rekstri eigin skilakerfis fyrir drykkjarvöruumbúðir eða með aðild að sameiginlegu kerfi fleiri framleiðenda og innflytjenda.

Lagt er til að ráðherra verði heimilt í reglugerð að kveða á um að framleiðendur og innflytjendur drykkjarvöruumbúða starfi allir saman í einu skilakerfi. Þetta ákvæði á sér fyrirmynd í dönsku umhverfislöggjöfinni. Slíkt leyfi til aðeins eins skilakerfis yrði að hámarki veitt til sex ára í senn en gerð er tillaga um það í frumvarpinu að hvert og eitt skilakerfi fyrir drykkjarvöruumbúðir skuli sjá til þess að koma á söfnun og móttöku á drykkjarvöruumbúðum um land allt.

Gert er ráð fyrir í frumvarpinu að áfram verði greitt skilagjald þegar drykkjarvöruumbúðum er skilað, að lágmarki 14 kr. á hverja umbúðareiningu. Skilakerfið getur haft þessa upphæð hærri ef það kýs svo eða þörf krefur. Mikilvægt er talið að halda í skilagjaldið þar sem það er hvatning til að skila notuðum drykkjarvöruumbúðum.

Með frumvarpinu er einnig lagt til að innleiða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/66/EB, um rafhlöður og rafgeyma og notaðar rafhlöður og rafgeyma. Samkvæmt tilskipuninni skulu aðildarríki hvetja til flokkunar og söfnunar á notuðum rafhlöðum og rafgeymum. Dreifingaraðilum færanlegra rafhlaða og rafgeyma skal gert að taka við notuðum rafhlöðum og rafgeymum um leið og ný rafhlaða eða rafgeymir er afhentur nema önnur söfnunarkerfi séu til staðar sem nái markmiðum tilskipunarinnar. Gerð er tillaga um það í frumvarpinu að nýta þessa heimild þannig að þeim sem selja og dreifa rafhlöðum og rafgeymum beri að taka við notuðum rafhlöðum og rafgeymum á sölu- eða dreifingarstað gjaldfrjálst og tryggja viðeigandi ráðstöfun. Í frumvarpinu er lagt til að núverandi kerfi hér á landi verði viðhaldið og að rafhlöður og rafgeymar beri áfram úrvinnslugjald og verði safnað á sama hátt og verið hefur.

Í 8. gr. frumvarpsins eru ákvæði sem varða úrgang frá námum og jarðefnavinnslu og sett til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/21/EB, um meðhöndlun úrgangs frá námuiðnaði. Í frumvarpinu eru settar fram reglur um meðhöndlun úrgangs frá jarðefnavinnslu, við meðferð og geymslu á steinum og steinefnum og frá námuvinnslu og um þær námur þar sem spilliefni eru notuð eða falla til við námuvinnsluna og úrgangurinn er meðhöndlaður á staðnum. Námuúrgangsstaðir þurfa starfsleyfi og er í frumvarpinu gerð tillaga um að það falli að hinu hefðbundna kerfi um starfsleyfi fyrir mengandi starfsemi.

Í frumvarpinu er gerð tillaga um að krefjast skuli fjárhagslegrar tryggingar af framkvæmdaraðilum og er það í sama ferli og almennt gildir um urðunarstaði. Hafa skal eftirlit með starfsleyfisskyldum úrgangsstöðum fyrir námuúrgang og halda skal skrá yfir námuúrgangsstaði sem hefur verið lokað. Námuúrgangsstaðir sem þurfa starfsleyfi og eru starfandi 1. maí 2008 skulu uppfylla skilyrði tilskipunarinnar fyrir 1. maí 2012. Hins vegar er rétt að benda á að sennilega munu engir staðir hér á landi falla undir þessi ákvæði.

Ábyrgð framleiðenda og innflytjenda á raf- og rafeindatækjum og úrvinnslu þess úrgangs sem af þeim hlýst tók gildi 1. janúar 2009 með lögum nr. 73/2008, um breytingu á lögum nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs. Frá þeim tíma sem liðinn er hefur komið í ljós að nokkur ákvæði laganna má einfalda til að bæta framkvæmd mála er varða framleiðendaábyrgð á raf- og rafeindatækjum en með þessu frumvarpi er ætlunin að bæta úr ágöllum á framkvæmdinni og stuðla að því að hún gangi betur. Breytingarnar felast einkum í því að skýra framkvæmdina og gera hana einfaldari.

Þá er lagt til að Úrvinnslusjóður fari með hlutverk stýrinefndar raf- og raftækjaúrgangs til að gera starf stýrinefndar markvissara og hagkvæmara og er gert ráð fyrir að bætt verði við stjórn Úrvinnslusjóðs fulltrúa Félags atvinnurekenda þar sem innan vébanda þess eru innflytjendur raf- og rafeindatækja sem ekki eiga aðild að stjórn Úrvinnslusjóðs í dag. Stýrinefndinni er ætlað það hlutverk að hafa umsjón með starfsemi skilakerfa, þ.e. að þau uppfylli skyldur sínar, tryggja að þau virki og að safna saman upplýsingum frá þeim. Lögð er til í frumvarpinu gjaldtökuheimild fyrir Umhverfisstofnun annars vegar og Úrvinnslusjóð hins vegar fyrir veitta þjónustu, eftirlit og verkefni stofnananna vegna raf- og rafeindatækjaúrgangs. Upphæð gjalda skal taka mið af kostnaði við veitta þjónustu og verkefni sem Umhverfisstofnun og Úrvinnslusjóði ber að sinna varðandi raf- og rafeindatæki.

Virðulegur forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. umhverfisnefndar að lokinni 1. umr.