139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

nýtt samkomulag um Icesave.

[10:35]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Fyrst varðandi fjölmiðlaumfjöllun um þetta mál, hún er ekki að tilstuðlan fjármálaráðuneytisins enda mun þetta mál ekki leysast í beinni útsendingu heldur væntanlega við samningaborð. Það er ekki búið að ganga frá samkomulagi. Það hefur orðið jákvæð framvinda í málinu allt frá því að fundað var eftir langt hlé í júlíbyrjun og síðan aftur í september. Síðan hafa verið samskipti í gangi á milli aðila og það hefur verið upplýst um að það hefur orðið jákvæð framvinda. Menn hafa nálgast en enn standa út af nokkur atriði sem þarf að klára áður en hægt er að segja að samkomulag liggi fyrir enda er það þannig í viðræðum af þessu tagi að það er ekkert búið fyrr en allt er búið. Menn ganga sameiginlega að lokum frá einhverri niðurstöðu. Þetta ferli er nákvæmlega eins og til þess var stofnað í kjölfar þess að stjórnmálaflokkarnir náðu saman um tiltekinn grundvöll viðræðna eftir fund sem ég átti í Haag með kollegum mínum, breskum og hollenskum. Með á þeim fundi voru þeir hv. þm. Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Síðan hefur verið byggt á því ferli sem þar lagði af stað. Stjórnarandstaðan á sinn sérstaka trúnaðarmann og fulltrúa í samninganefndinni og hefur fullan aðgang að framvindu mála í gegnum þann fulltrúa.

Varðandi viðskiptalífið og ýmsa áhugasama aðila þar um að þetta mál klárist er það ekki nýtt. Það hefur lengi legið fyrir að þetta er þrándur í götu ýmissar framvindu, hefur tafið efnahagsáætlunina um hálft ár til 9 mánuði. Það hefur tafið það að Ísland öðlaðist eðlilegan aðgang að erlendum fjármálamörkuðum, tefur ýmis fjárfestingarverkefni og hengir ákveðna óvissu yfir stöðu landsins. Þetta liggur allt fyrir og þar af leiðandi er ekki skrýtið að áhugamenn úr viðskiptalífinu sýni því áhuga að þetta mál verði leyst. Þeir vilja fylgjast með framvindunni og þeim hafa verið veittar almennar upplýsingar að þeirra eigin ósk eins og öðrum sem eftir því hafa leitað. Að sjálfsögðu er ekki farið efnislega inn í stöðu viðræðna á viðkvæmum tíma, heldur (Forseti hringir.) greint almennt frá framvindu mála.