139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

kynning RÚV á frambjóðendum til stjórnlagaþings.

[10:53]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Við lifum á stórkostlegum tímum umbreytinga og endursköpunar íslensks þjóðfélags. Fyrirhugað stjórnlagaþing er mikilvægur þáttur í því að gera Ísland aftur að sterku þjóðfélagi, öflugu, sanngjörnu, heiðarlegu og lýðræðislegu. Með því rætast margir draumar mínir í einu, stjórnlagaþing, persónukjör og svo landið eitt kjördæmi. Stórkostlegast af öllu finnst mér vera sú mikla samstaða og vilji fólks til að taka þátt í að gera Ísland að betra þjóðfélagi og vinna landi og þjóð gagn. 523 einstaklingar, flestir alveg frábærir, eru tilbúnir til að víkja öllu öðru til hliðar til að vinna að því að skilgreina hvernig þjóð við viljum vera og á hvaða stoðum samfélagið á að hvíla.

Þessi mikli fjöldi frambjóðenda virðist þó sumum þyrnir í augum því að Ríkisútvarp allra landsmanna ákvað strax að gefast fyrir fram upp fyrir því verkefni að kynna frambjóðendur og setti þá þess í stað alla í fjölmiðlabann þannig að þetta ágæta fólk er jafnvel klippt út úr fréttum og viðtöl við það um óskyld mál eru ekki birt. RÚV beit svo höfuðið af skömminni með því að senda þeim öllum með tölu tilboð í auglýsingar. RÚV finnst sem sagt ekki óréttlátt að sumir geti notað fjármagn til að kaupa sér þá kynningu sem Ríkisútvarpinu ber lýðræðisleg skylda til að veita. Frambjóðendur hafa tekið sig saman til að mótmæla þessu sinnuleysi og í kjölfarið tók sjónvarpið upp á því að sýna glærur af vef dómsmálaráðuneytisins á næturnar.

Ég hlýt að spyrja menntamálaráðherra hvernig hún hyggist bregðast við því, ekki bara í þessum kosningum heldur í framtíðinni til að tryggja að RÚV ræki lýðræðislegar skyldur sínar við almenning. (BirgJ: Heyr, heyr.)