139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

kynning RÚV á frambjóðendum til stjórnlagaþings.

[10:57]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Ég þakka ráðherra svarið sem reyndar fjallaði um annað en ég spurði um. Það er vissulega erfitt verkefni að kynna alla frambjóðendur en það er ekki óyfirstíganlegt vandamál. Og verkefni eru til þess að leysa þau. Vissulega þarf að beita skapandi hugsun og nýjum lausnum til að kynna 523 frambjóðendur á fjórum vikum en það er algjörlega óásættanlegt að ákveða að reyna það ekki einu sinni.

Ég hef hingað til skilgreint mig sem sérstakan vin Ríkisútvarpsins. Ég vil veg þess sem mestan, ég vil tryggja rekstrargrundvöll þess til framtíðar, en þegar stofnunin vanrækir lýðræðislega skyldu sína með þessum hætti í stað þess að reyna get ég ekki varið hana. Ég skil ekki til hvers við erum með Ríkisútvarp sem reynir ekki einu sinni að uppfylla lýðræðislegar skyldur sínar. Það er (Forseti hringir.) stofnuninni til ævarandi skammar að reyna ekki að kynna frambjóðendur betur.