139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

kynning RÚV á frambjóðendum til stjórnlagaþings.

[10:59]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spurði í fyrri fyrirspurn sinni, má segja, hvernig ætti að tryggja þetta til framtíðar. Ég vil þá greina frá því, eins og hefur raunar verið greint frá áður en styttist nú í það, að við munum kynna drög að nýjum endurskoðuðum þjónustusamningi mennta- og menningarmálaráðuneytis við Ríkisútvarpið. Þar munum við setja þessar lýðræðislegu skyldur í mikið öndvegi því að það er auðvitað lykilhlutverk RÚV. RÚV hefur ýmsum skyldum að gegna, við getum nefnt hina menningarlegu og öryggislegu, en samfélagsleg skylda þess til að tryggja lýðræðislega umræðu er jafnvel sú ríkasta. Hún verður sett í öndvegi með þessum þjónustusamningi og ég vona svo sannarlega að það verði líka til að skerpa enn betur á þeirri skyldu.