139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

úthafsrækjuveiðar.

[11:00]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég hef á undanförnum vikum, allt frá byrjun september, innt hæstv. sjávarútvegsráðherra eftir viðbrögðum hans við því lögfræðiáliti sem hefur verið lagt fram vegna ákvörðunar hans um frjálsar veiðar á úthafsrækju. Ráðherra hefur ekki gefið okkur, hvorki í umræðum né fyrirspurnum á þinginu, nein haldbær svör. Ég brá á það ráð að gefa hæstv. ráðherra tækifæri og svigrúm til að gefa skrifleg svör við þessu og þau bárust mér í gær. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að áfram heldur ráðherrann vinnubrögðum á sama plani. Hann gefur ekki nein svör við þeim spurningum sem fyrir hann eru lagðar. Ég tek sem dæmi fyrstu spurninguna sem ég spyr ráðherra:

Hver eru viðbrögð ráðherra við álitamálum um lögmæti ákvörðunar hans um að gefa ekki út heildarafla úthafsrækju á fiskveiðiárinu 2010/2011 með reglugerð og gefa þannig veiðar á úthafsrækju frjálsar, í ljósi minnisblaðs Ástráðs Haraldssonar hrl., dags. 9. júlí 2009, og álitsgerðar Karls Axelssonar hrl. og dósents í lagadeild Háskóla Íslands, dags. 26. ágúst 2010?

Svar ráðherrans við þessu er eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Ráðherra gaf út heildaraflamark fyrir 15 íslenska nytjastofna 16. júlí sl. Úthafsrækja var þar ekki á meðal og hefur hann enga ákvörðun tekið um aðra skipan mála fram að þessu þrátt fyrir tilvitnað minnisblað og álitsgerð.“

Ráðherrann svarar ekki því alvarlega álitaefni að hann sé að brjóta lög með þessari ákvörðun sinni. Fyrir því eru lögð fram mjög rökstudd rök. Ég vil gefa ráðherranum tækifæri á að svara þessari spurningu núna. Ég vil spyrja hann hvort hann hafi leitað til lögmanna, hvort til sé álitsgerð (Forseti hringir.) í sjávarútvegsráðuneytinu sem svari þessu áliti og því sem lagt hefur verið fram í þessu máli.