139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

úthafsrækjuveiðar.

[11:05]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég hef svo sem litlu við þetta svar að bæta. [Hlátur í þingsal.] Hv. þingmaður er haldinn fullkominni þráhyggju varðandi þetta mál. (JónG: Svar.) Svarið liggur fyrir (JónG: Er það til eða ekki?) og ráðherra hefur tekið þessa ákvörðun, bæði út frá (JónG: Er lögfræðiálit til?) lögum um stjórn fiskveiða og þeirri ábyrgð sem hann ber gagnvart því að þeir stofnar sem eru til veiða á Íslandsmiðum séu nýttir og um þá gengið þannig að þjóðarhagur sé hafður að leiðarljósi. (Gripið fram í.) Ef hv. þingmaður vill velta fyrir sér lögfræðilegum álitum getur hann velt fyrir sér með hvaða hætti menn hafa ráðskast með (Gripið fram í.) heimildir í veiði á rækju á undanförnum árum og hvernig menn hafa verslað með aflaheimildir, aðilar sem enga rækju hafa veitt en eru samt með rækjukvóta.

Rækjan er, eins og hv. þingmaður er greinilega (Forseti hringir.) mjög taugatrekktur yfir, dæmigerð fyrir hinar verstu hliðar kvótakerfisins. (Forseti hringir.)