139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

svör ráðherra við fyrirspurnum.

[11:08]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Svar hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra lýsir gríðarlega mikilli forherðingu. Við þingmenn ræðum þessi mál út frá því að það er Alþingi sem setur lögin. Nú liggur fyrir vandað lögfræðiálit sem segir að hæstv. ráðherra sé að brjóta lögin. Þá hefði maður ímyndað sér að hæstv. ráðherra, sem hefði a.m.k. einhvern snefil af sjálfsvirðingu og þá hugmynd að hann ætti að fara að lögunum, mundi bregðast við með þeim hætti að skoða þetta betur. Þess vegna höfum við kallað eftir því hvort lögfræðilegt álit liggi fyrir í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Okkur var ítrekað sagt í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd að slíks álits væri að vænta. Nú hefur verið óskað eftir því, m.a. með formlegri fyrirspurn frá hv. þm. Jóni Gunnarssyni. Í svarinu við henni er því ekki svarað. Hæstv. ráðherra er síðan í framhaldinu gefinn kostur á því að rétta hlut sinn og hann spurður hvort ekki sé til slíkt álit í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu og hvort hæstv. ráðherra sé viss um að hann sé að fara að lögum. (Forseti hringir.) Hæstv. ráðherra svarar þessu ekki og nú verður þingið að bregðast við. Við getum ekki (Forseti hringir.) látið það gerast að framkvæmdarvaldið sé mögulega að brjóta lög sem Alþingi setti.