139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

samgöngumál á suðvesturhorni landsins.

[11:48]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Við ræðum hér mjög mikilvægt mál þó að það væri hægt að ræða þetta miklu lengur. Ég hef óskað eftir fundi með hæstv. samgönguráðherra, m.a. út af þessum málum. Sem íbúi og þingmaður kjördæmisins keyri ég hér á milli á hverjum degi. Það er brýnt að það verði farið að líta á höfuðborgarsvæðið sem landsvæði milli Hvítáa, þ.e. Hvítár í Ölfusi og Hvítár í Borgarfirði, þetta er eitt atvinnusvæði, þetta er eitt samgöngusvæði. Það sem mundi gera mest gagn til að efla samgöngur á þessu svæði er stórefling almenningssamgangna, það hefur komið fram, og það er hægt að ná því fram með tiltölulega einföldum skipulagsbreytingum. Reykjavík er eina borgin í öllum okkar nágrannalöndum þar sem hið opinbera kemur ekki með myndarlegum hætti að almenningssamgöngum. Það er í rauninni alveg stórfurðulegt að alla tíð skuli hafa verið litið á þær út frá því hvort þær skili hagnaði eða ekki. Þetta er fráleit nálgun við almenningssamgöngur.

Það þarf að fara í talsverðar úrbætur á helstu umferðaræðum. Arnarnesvegur hefur verið nefndur, Sundabraut og tvöföldun Reykjanesbrautar í gegnum Hafnarfjörð. Hafnarfjarðarvegur í gegnum Garðabæ er mjög brýnt verkefni. Eitt af því sem hefur gert það að verkum að þetta landsvæði hefur liðið fyrir fjárveitingar í samgöngumálum er kjördæmafyrirkomulagið og misvægi atkvæða. Vonandi tekst stjórnlagaþinginu að lagfæra þann óskapnað sem hefur orðið þjóðinni dýrkeyptari en sennilega flest annað í gegnum söguna.

Eitt af þeim atriðum sem mjög brýnt er að laga er að losna við flugvöllinn og færa innanlandsflugið (Gripið fram í.) til Keflavíkur. Flugvöllurinn tekur meira af landsvæði í Reykjavík en öll borgin vestan Lönguhlíðar (Gripið fram í: … höfuðborgin líka.) og flugvallarsvæðið afgreiðir færri og þjónustar færri á hverjum einasta degi en kaffihúsið Café París hérna hinum megin við torgið. Við skulum athuga að það er gríðarleg sóun á dýrmætu landsvæði (Forseti hringir.) þar sem eitt lítið kaffihús afgreiðir 1.500 gesti á dag en allur flugvöllurinn í Reykjavík afgreiðir um 900 manns á dag.