139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

samgöngumál á suðvesturhorni landsins.

[11:50]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka framsögumanni þessa umræðu sem fram fer um samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu. Þau hafa sjaldnast fengið mikinn hljómgrunn. Þingmennirnir sem sitja í Reykjavíkurkjördæmum norður og suður sem og Suðvesturkjördæmi, 34 talsins, hafa kannski ekki verið svo góðir talsmenn samgöngumála á höfuðborgarsvæðinu miðað við það fjármagn sem fer hingað og fer svo aftur til landsbyggðarinnar.

Mig langar að ræða þetta mál út frá því atvinnuleysi sem ríkir á höfuðborgarsvæðinu vegna þess að hér hrundi atvinnulífið, hvort heldur var í byggingariðnaði eða jarðvegsiðnaði og öðru þess háttar. Hér er fjöldinn allur af stórum og meðalstórum fyrirtækjum að hverfa vegna þess að fólkið hefur ekkert að gera, m.a. vegna þess að hér er ekki farið í samgönguverkefni. Þetta er brýnt og atvinnuleysið á höfuðborgarsvæðinu er aldrei rætt í almennri umræðu um atvinnuleysi í landinu. Það er samt mikið.

Í öðru lagi vil ég benda á öryggismál sem er brýnt. Ekki ætla ég að taka það í suðurhluta kjördæmisins, heldur í norðurhluta kjördæmisins. Ef stórslys verður á Kjalarnesi og/eða í Hvalfjarðargöngum lokast Vesturlandsvegurinn á milli Leirvogsár og Hvalfjarðarganga. Þá er eina leiðin til og frá höfuðbogarsvæðinu vestur og norður í land um Kjósarskarðsveg, veg sem er tilbúinn til útboðs, veg sem er öryggismál í Suðvesturkjördæmi fyrir höfuðborgina alla sem og þá sem koma vestan og norðan að ef eitthvað gerist frá Hvalfjarðargöngum að Leirvogsá. Það er brýnt, frú forseti, að hæstv. samgönguráðherra setji nú þegar þennan brýna öryggisveg okkar Suðvesturkjördæmisbúa í forgang og bjóði hann út.