139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

samgöngumál á suðvesturhorni landsins.

[11:53]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég þakka sömuleiðis fyrir þessa umræðu sem ég tel tímabæra. Það er eðlilegt að hún sé tekin núna þegar við erum m.a. að vinna fjárlög fyrir árið 2011.

Mig langar að nálgast þetta umræðuefni ekki síst út frá umhverfisþáttunum sem ég tel mikilvæga. Hér á höfuðborgarsvæðinu stafar einn helsti orsakavaldur mengunar af umferðinni. Ég tel mjög mikilvægt að við horfum á lausnir í samgöngumálum á þessu svæði með umhverfisþáttinn og umferðaröryggisþáttinn í huga. Það er ekki skynsamlegt að mínu viti að ræða þau bara út frá einstökum gatnaframkvæmdum, alls konar mislægum lausnum eða þess háttar. Það gilda í raun önnur lögmál um það hvaða lausnir eru skynsamlegar og hagkvæmar fyrir umferð í borgarumhverfi en í dreifbýli eða minni bæjarfélögum. Það segir sig sjálft.

Ég tek undir með þeim hv. þingmönnum sem hafa nefnt það að það er brýnt að gera stórátak í almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu. Það þarf að ræða fjármögnun þeirra líka, það er ekki eðlilegt að allir markaðir tekjustofnar til samgöngumála fari meira og minna bara í vegaframkvæmdir. Þannig er það hvergi í löndunum í kringum okkur, heldur fara markaðir tekjustofnar í samgöngumálum einnig í almenningssamgöngur, hjólreiðastíga, göngustíga o.s.frv. Þetta er mikilvægt.

Ég vil líka segja það og ég hef verið talsmaður þess að það er mikilvægt að vinna að því að þétta byggð á höfuðborgarsvæðinu til að almenningssamgöngurnar verði enn arðbærari en ella og geri mönnum auðveldara að komast leiðar sinnar. Ég tel að það sé hægt að ná miklum efnahagslegum og fjárhagslegum ávinningi með því að leggja meira í almenningssamgöngur og ná sama markmiði en alltaf í dýrar samgönguframkvæmdir. Með því er hægt að draga úr sársaukafullum niðurskurði, m.a. í heilbrigðis- og félagsmálum sem við öll (Forseti hringir.) væntanlega viljum.