139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

samgöngumál á suðvesturhorni landsins.

[11:55]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það er oft talað um kjördæmapot þegar menn ræða um samgöngumál og þótt sú er hér stendur sé þingmaður fyrir Suðvesturkjördæmi tel ég brýnt að við byggjum upp mjög góðar samgöngur um landsbyggðina. Ég held að þingmenn á höfuðborgarsvæðinu hafi frekar góðan skilning á því. Það þarf auðvitað að byggja upp hér líka en við erum svolítið kleyfhuga í þessari umræðu, virðulegur forseti.

Bílafrekjan svokallaða hefur verið hér mjög hátt á lofti og við erum alltaf að byggja ný samgöngumannvirki en við gerum of lítið í almenningssamgöngum eins og hér hefur verið dregið fram. Við hælum okkur af því að við erum mjög umhverfisvæn á Íslandi, eigum mjög mikla orku o.s.frv., en svo eigum við flestöll tvo bíla á heimilinu. Bensínið kostar nú um 200 kr. lítrinn en bíllinn virðist vera í miklum forgangi hjá okkur.

Það er mjög umhugsunarvert af hverju við höfum ekki gert meira. Ég held að þetta sé aðferðafræði sem við höfum haft við líf okkar og að það þurfi að breyta þeirri hugmyndafræði sem við höfum búið við. Það þarf að stórefla almenningssamgöngur og ég vil nefna það að í Danmörku hjólar helmingur íbúa til vinnu. Þetta er ótrúlega hátt hlutfall, meira en helmingur íbúa hjólar til vinnu. Hér notum við þá afsökun: Æ, það er svo vont veður, það er svo erfitt að hjóla o.s.frv. Ég held að það sé afsökun sem dugir ekki langt þegar maður fer að skoða það nánar.

Svo er það líka svolítið merkilegt, af því að við höfum svo mikla orku og ódýrt rafmagn, af hverju við erum ekki á fleiri litlum rafmagnsbílum. Þó að Jón Gnarr borgarstjóri hafi lent í einhverjum vandræðum þarna um daginn á sínum bíl tel ég að við eigum að gera átak í að reyna að koma sérstaklega íbúunum á höfuðborgarsvæðinu að einhverju leyti í litla rafmagnsbíla ef það þurfa endilega að vera tveir bílar á heimili. Af hverju er ekki annar bíllinn lítill rafmagnsbíll sem þarf ekki að nota mikið pláss og notar vistvæna orku?

Við þurfum að gera stórátak í þessum málum til að við séum ekki hér bílaborg af gamaldags gerð.