139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

Landsvirkjun.

188. mál
[12:07]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 42/1983, um Landsvirkjun, með síðari breytingum. Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar sem má rekja til ákvörðunar Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) í tengslum við rannsókn stofnunarinnar á fyrirkomulagi eigendaábyrgða Landsvirkjunar og Orkuveitu Reykjavíkur.

Þetta mál á sér talsvert langa forsögu eins og ítarlega er rakið í athugasemdum með frumvarpinu en rannsókn Eftirlitsstofnunarinnar á framangreindum eigendaábyrgðum hófst á árinu 2002 og lauk hinn 8. júlí 2009 með ákvörðun ESA. Ákvörðunin var í formi tilmæla ESA til íslenskra stjórnvalda að grípa til nauðsynlegra ráðstafana þannig að fyrirkomulag eigendaábyrgða Landsvirkjunar og Orkuveitu Reykjavíkur verði í samræmi við skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum.

Í ákvörðuninni kemur m.a. fram að sú ótakmarkaða eigendaábyrgð sem Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur njóta í gegnum eignarhald fyrirtækjanna sé ekki í samræmi við ákvæði EES-samningsins um ríkisaðstoð. Hins vegar kemur einnig fram að ESA lítur svo á að heimilt sé að veita eigendaábyrgð vegna lánaskuldbindinga viðkomandi fyrirtækja, að því gefnu að greitt sé hæfilegt ábyrgðargjald fyrir og að öðrum skilyrðum sé mætt.

Markmið frumvarps þessa sem ég mæli hér fyrir er því að gera nauðsynlegar breytingar á lögum um Landsvirkjun sem eiga að tryggja að ábyrgðir eigenda Landsvirkjunar séu í samræmi við ríkisstyrkjareglur EES-samningsins. Í þeirri breytingu felst að ábyrgðin sé ekki ótakmörkuð, hún nái eingöngu til lánaskuldbindinga sem sérstaklega eru samþykktar af fjármálaráðherra og að fyrir hana sé greitt hæfilegt ábyrgðargjald í samræmi við lög um ríkisábyrgð.

Í kjölfar ákvörðunar ESA var fenginn óháður aðili til að meta hvað telst vera hæfilegt ábyrgðargjald vegna þeirra ábyrgða eigenda sem eru á lánum Landsvirkjunar. Var það gert með samanburði á lánskjörum með og án ábyrgðar eigenda. Liggur úttekt hins óháða aðila fyrir eins og nánar er gerð grein fyrir í athugasemdum með frumvarpinu. Í dag greiðir fyrirtækið 0,25% ábyrgðargjald á ári af þeim lánum sem eigendaábyrgð er á samkvæmt lögum um ríkisábyrgð, en samkvæmt umræddu mati er hæfilegt gjald talið vera um 0,45% á ári sem er umtalsverð hækkun.

Að lokum ber þess að geta að í frumvarpinu er lagt til að í bráðabirgðaákvæði verði kveðið á um að ábyrgðir eigenda Landsvirkjunar á lánaskuldbindingum svo og skuldbindingum samkvæmt rafmagnssamningum við stóriðjufyrirtæki, sem stofnað hefur verið til fyrir gildistöku laganna, haldi gildi sínu eins og til þeirra er stofnað þar til þær eru að fullu efndar. Verði frumvarpið að lögum mun það því ekki hafa áhrif á núgildandi lánaskuldbindingar fyrirtækisins að þessu leyti nema að fyrir þær verður greitt hærra ábyrgðargjald frá og með gildistöku laganna. Ábyrgðir eigenda á öðrum skuldbindingum Landsvirkjunar falla hins vegar niður frá og með gildistöku laganna og ábyrgðin er þar með ekki ótakmörkuð eins og verið hefur.

Frumvarp þetta var unnið í samstarfi við Landsvirkjun, iðnaðarráðuneytið og Eftirlitsstofnun Evrópska efnahagssvæðisins, ESA. Samhliða þessu frumvarpi legg ég fram frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 121/1997, um ríkisábyrgðir, þar sem lagðar eru til breytingar á þeim lögum í samræmi við fyrirhugaðar breytingar á lögum um Landsvirkjun.

Hæstv. iðnaðarráðherra mun auk þess mæla fyrir breytingu á lögum nr. 139/2001, um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur, þar sem lagðar eru til sambærilegar breytingar á eigendaábyrgðum Orkuveitunnar.

Eins og fram kemur í kostnaðarumsögn með frumvarpinu mun það hafa í för með sér talsverðan tekjuauka fyrir ríkissjóð. Og að þessu sögðu, frú forseti, legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. efnahags- og skattanefndar.