139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

Landsvirkjun.

188. mál
[12:13]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Eitt megineinkenni hlutafélagaformsins er að það er félagaform sem nýtur takmarkaðrar ábyrgðar, þ.e. eigendurnir bera takmarkaða ábyrgð á skuldbindingum félagsins. Í b-lið 1. gr. stendur, með leyfi forseta:

„Komi fram beiðni um greiðslustöðvun, nauðasamninga eða gjaldþrotaskipti skulu ákvæði laga um gjaldþrotaskipti, eins og þau eru á hverjum tíma, eiga við um Landsvirkjun með sama hætti og um félag með takmarkaða ábyrgð.“

Félagið hlítir meginatriði hlutafélagalaga þannig að ég lít þannig á að þetta sé orðið hlutafélag þótt það uppfylli ekki önnur skilyrði hlutafélagalaga sem hafa minna vægi.

Síðan vil ég velta því upp að ef fjármálaráðherra hefði á sínum tíma verið á móti Káranhjúkavirkjun hefði honum verið í lófa lagið að veita alls ekki ábyrgð á þeim lánum sem þurfti til að sú framkvæmd færi í gang. 9. gr. laganna á að orðast svo skv. 2. gr. frumvarpsins:

„Landsvirkjun er heimilt að taka lán til þarfa fyrirtækisins og gangast í ábyrgð fyrir greiðslum í sama skyni. Nýjar lántökur, sem njóta skulu ábyrgðar eigenda“ — þ.e. ríkisins — „skv. 2. mgr. 1. gr., eru háðar samþykki fjármálaráðherra.“

Landsvirkjun hefði sem sagt ekki fengið eins hagkvæm lán á sínum tíma og sennilega ekki getað ráðið því þá hvað var framkvæmt við Kárahnjúka ef fjármálaráðherra á þeim tíma hefði verið andstæður virkjuninni.