139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

Landsvirkjun.

188. mál
[12:24]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég geri ráð fyrir því að áður en menn færu að breyta lögum um Orkuveitu Reykjavíkur mundu menn ræða það mál við eigandann, sem er Reykjavíkurborg. Við erum kannski að reyna að stuðla að því að fornvinur hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, Alfreð Þorsteinsson, geti komið hingað til að taka þátt í umræðunum. Mér heyrist að þetta gæti tekið sig upp á kunnuglegum slóðum ef út í það væri farið. (Gripið fram í: Það eru nú fleiri …) En hvernig sem því verður nú viðkomið — sá ágæti maður á ekki sæti á Alþingi sem stendur.

Varðandi Landsvirkjun sjálfa þá að sjálfsögðu snýr ábyrgð okkar að því fyrirtæki og lagaumgjörð þess. Ég held að þróunin þar á bæ, óháð lögum eða lagafyrirmælum, sé mjög jákvæð. Það er alveg ljóst t.d. að Landsvirkjun er að ná árangri í því að dreifa betur áhættu sinni, m.a. með því að færa að hluta til samninga úr beintengingu við álverð yfir í verðtryggt fast verð þannig að það hjálpar í þessum efnum. Landsvirkjun ætlar að tryggja sér hlutdeild í hækkandi orkuverði og þróun orkuverðs eins og það hefur verið á undanförnum árum og stefnir upp á við. Það er gríðarlega stórt hagsmunamál fyrir Ísland að við löndum sem mestu af þeim ávinningum til okkar sjálfra þannig að orkuverðið hér geti þróast með svipuðum hætti og það hefur verið að gera að undanförnu til verulegrar hækkunar, ekki síst í Evrópu, tala nú ekki um þegar í hlut á græn orka.

Ég held líka að það séu skynsamlegar áherslur sem eru undir í stefnumótunarvinnu fyrirtækisins að reyna að breikka viðskiptavinahópinn, að fjölga tegundum kaupenda, og á komandi árum verður þróunin líklega í þá átt að raforka verði seld til fleiri minni og meðalstórra fyrirtækja þannig að áhættan dreifist einnig í þeim efnum.

Það er alveg ljóst að arðmöguleikar, eða möguleikar okkar til ávinnings, ef rétt verður á málum haldið á komandi árum, eru gríðarlegir. Þetta getur og á auðvitað vera okkar verðmætasta auðlind. Það sem við þurfum að gera er að tryggja að arðurinn af henni gangi til okkar sjálfra.