139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

Landsvirkjun.

188. mál
[12:34]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Í fyrsta lagi varðandi sameignarformið, það á sér náttúrlega þá forsögu eins og hv. þingmenn þekkja að Landsvirkjun var sameignarfyrirtæki ríkisins, Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar á löngu árabili. Síðan hefur það rekstrarform haldist, enda tel ég að það hafi gefist fyrirtækinu ágætlega. Það er skýrt um það búið í sérlögum um fyrirtækið.

Í öðru lagi með ríkisábyrgðirnar, það þarf nú varla að ræða það hér á Alþingi að það eru að sjálfsögðu engar ríkisábyrgðir veittar enda bannað, bæði samkvæmt stjórnarskrá og lögum um ríkisábyrgðir, nema fyrir því séu heimildir í lögum. Það þarf ekki að orðlengja meira um það, svo einfalt er það mál. Að sjálfsögðu eru reglubundið þá, eða eftir því sem þörf krefur, teknar inn heimildir til að veita ríkisábyrgð á láni í þessu tilviki eins og öllum öðrum.

Það kann svo vel að vera að ábyrgðargjaldið þýði að fyrirtæki á komandi árum, mér liggur við að segja vonandi, bara meti það á hverjum tíma hvort það óskar eftir ábyrgð ríkisins á einhverjum lántökum sem það ræðst í eða hvort það telur stöðu sína svo sterka, lánshæfismat sitt svo gott og aðgang að erlendu fjármagni án ríkisábyrgðar þannig að það sé jafngóður kostur. Að sjálfsögðu þarf fyrirtækið að keppa að því að komast í þannig horf á nýjan leik að það geti sjálfstætt án eigandahlutverks ríkisins fengið lánshæfismat sem tryggir því góðan og greiðan aðgang að fjármagni á eðlilegum kjörum.

Að mínu mati væri sennilega einhver vitlausasta ráðstöfun sem hægt væri að ráðast í frá sjónarhóli hagsmuna ríkissjóðs og skattgreiðenda komandi áratuga að selja Landsvirkjun um þessar mundir. Það er algerlega ljóst að geta fyrirtækisins til að greiða skatta og arð mun vaxa mjög á komandi árum ef rétt verður á málum haldið. Fyrirtækið er að vaxa að verðmæti á ári hverju. Handbært fé frá rekstri stefnir í á þriðja hundrað milljónir dollara á ári þannig að það er veruleg verðmætasköpun. Fyrirtækið hefur nú tvö ár í röð greitt talsvert niður skuldir sínar með handbæru fé frá rekstri. Horfurnar eru (Forseti hringir.) ágætar hvað þetta snertir til framtíðar litið og trúlega væri það einhver vitlausasta sala á gullgæs sem um getur að láta Landsvirkjun fara núna.