139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

Landsvirkjun.

188. mál
[12:36]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég las ummæli hæstv. fjármálaráðherra frá ársfundi Landsvirkjunar. Hann talaði um gullkvörn og var þá um leið að samþykkja það sem kom fram sem grundvöllur þeirrar miklu arðsemi sem er tvöföldun á virkjunum. Í áætlun Landsvirkjunar er gert ráð fyrir því að virkjanir verði tvöfaldaðar á næstu 20 árum sem kemur til með að valda þessum mikla hagnaði, búa til gullkvörn. Ég las það a.m.k. út úr ummælum frá þessum fundi.

Ef þetta er svona mikil gullgæs gæti verið lag einmitt núna þegar vextir eru í algjöru lágmarki í heiminum. Í sumum löndum eru vextir komnir í 0% og þá gæti aldeilis verið lag núna að selja fyrirtækið vegna þess að verðið á svona fyrirtæki fer mjög mikið eftir vöxtum á markaði. Eftir því sem vextirnir eru lægri, þeim mun hærra verður verðið. Ef það gefur svona óskaplega mikið af sér samkvæmt þessum áætlunum sem ég trúi og treysti, ég tel að Landsvirkjun sé mjög gott fyrirtæki, er aldeilis ekki amalegt að fá fyrir það mjög hátt verð í ljósi þeirra vaxta sem ríkissjóður Íslands er að borga. Það eru mjög háir vextir vegna lélegs lánshæfismats, og þeir vextir sem fyrirtæki gætu fengið sem keyptu Landsvirkjun væru mjög lágir. Ég mundi nú leggja til að menn skoðuðu þetta. Eftir 35 eða 40 ár, eftir því hvað menn leigja auðlindir til langs tíma, seldum við auðlindina aftur með sama hætti. Það væri nú ekki amalegt að selja gullgæsina tvisvar, þrisvar eða fjórum sinnum, eða bara 100 sinnum næstu aldirnar til þjóðarinnar. Einmitt þessi lög sem sett voru um 65 ára hámarksframsal auðlindarinnar gera það að verkum að þjóðin mun geta selt auðlindina aftur og aftur. Það er einmitt markmiðið. Ég tel að menn ættu að nota núna lágvaxtatímabil til að fá sem best verð fyrir Landsvirkjun.