139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

Landsvirkjun.

188. mál
[12:38]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þó að Landsvirkjun teikni upp sem mögulega framtíðarmynd að orkuframleiðslan tvöfaldist á næstu 20 árum sem er náttúrlega miklu hægari vöxtur en verið hefur undanfarin 10–15 ár, þegar hún hefur þrefaldast á mjög skömmum tíma, er þarna gert ráð fyrir að þetta gerist í hóflegum áföngum á löngu tímabili. Það er ekki endilega nátengt arðgreiðslugetumöguleikum fyrirtækisins út úr núverandi starfsemi. Þeir munu fara mjög vaxandi og mjög hratt eftir því sem eldri fjárfestingar afskrifast niður, og alveg sérstaklega gangi vel að innleysa inn í samninga hækkandi orkuverð sem er sú þróun sem fyrst og fremst vinnur með okkur í þessum efnum. Það er stórhækkun á orkuverði á mörkuðum bæði austan hafs og vestan, svo ég tali nú ekki um eftirspurn í græna orku, samanber m.a. markmið Evrópusambandsins um að hún verði orðin 20% hlutdeild af raforkumarkaði 2020. Þarna eigum við veruleg sóknarfæri sem við eigum ekki að láta ganga okkur úr greipum.

Ég held að langtryggasta aðferðin til þess að arðurinn endi þar sem hann á að enda, hjá íslensku þjóðinni, sé að hún eigi þetta fyrirtæki. Þá eru engir milliliðir sem ætla sér sinn hlut út úr því dæmi. Það þarf líka að vinna markvisst að því að færa stærri hluta arðsins yfir til framleiðandans og seljanda orkunnar þannig að okkar sneið af kökunni verði sem stærst.

Útreikningar sem m.a. voru sýndir á fundi Landsvirkjunar á dögunum sýna að þrátt fyrir þá framtíðarmynd sem þarna er teiknuð upp er það kaupandinn sem fær stóra hlutdeild í arðinum. Eðlilega, hann verður jú væntanlega alltaf að fá sitt, en markmið okkar Íslendinga hlýtur að vera það að sem mest af rentunni, virðisaukanum af þessari auðlind okkar, verði hjá okkur sjálfum, komi okkur til góða. Höfum við ekki verið að tala um að orkuauðlindirnar séu, kannski á eftir fiskimiðunum, ein verðmætasta efnislega eða náttúrulega auðlind Íslands? Jú, og þá ætlum við okkur auðvitað líka arðinn af henni til uppbyggingar samfélags okkar.