139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

Landsvirkjun.

188. mál
[12:40]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Rekstur Landsvirkjunar er áhættubundinn. Það er heilmikil áhætta bundin í rekstri Landsvirkjunar. Stærsti áhættuþátturinn er verð á áli, hvort sem það er bundið við orkuverðið eða ekki er það áhættuþáttur. Hækkun vaxta er líka annar áhættuþáttur. Það er viðbúið að eftir fimm eða tíu ár hætti menn að gefa fjármagn um allan heim eins og er núna. Núna er fjármagn með mjög lágum vöxtum sem þýðir að söluverð eigna er mjög hátt. Ef menn ætla að treysta því að alltaf verði lágir vextir og alltaf hátt álverð er þetta rétt sem hæstv. ráðherra sagði. Ég tel hins vegar að íslenska þjóðin hafi fengið nóg af því að taka áhættuna. Ég hélt það. Það er miklu betra að vera með peninga í kassa og borga upp erlendar skuldir sínar, sem bera núna 4–5% vexti. Vegna slaks mats Íslands ættu menn að nota það að selja eignir miðað við þessa lágu vexti og borga upp skuldir með háum vöxtum og gera Ísland sem fyrst skuldlaust. Ég minni á það að ég hugsa að verðmæti Landsvirkjunar, ég ætla ekki að slá á það, en það getur verið 500 milljarðar kr., eitthvað svoleiðis. Það yrði aldeilis búbót í þjáðu landi sem er að hækka skatta og flæma alla Íslendingar til útlanda. Það fara a.m.k. tíu á dag. Og ein mesta auðlind Íslands er mannauðurinn þannig að það er stórhættulegt.

Ég vildi gjarnan að menn skoðuðu þennan möguleika. Það mætti lækka skatta heilmikið með því að selja Landsvirkjun. Það getur auk þess verið mjög skynsamlegt til að minnka áhættu þjóðarinnar.