139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

Landsvirkjun.

188. mál
[12:49]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það voru fleiri sem fóru flatt á kreppunni, m.a. sparisjóðir og Íbúðalánasjóður, líka mörg sveitarfélög. Ég held að það sé ekki hlutafélagaforminu sem slíku að kenna. Reyndar er veila í því sem ég hef bent á, en ef það væru lög, sem hindruðu þá veilu gæti þetta orðið fínt.

Það er dálítið ankannalegt að vera í sameignarfélagi með sjálfum sér og bera þar að auki takmarkaða ábyrgð. Það er spurning hvort það ætti ekki að vera einkahlutafélag algjörlega í eigu ríkisins sem mætti ekki selja nema með ákvörðun Alþingis og bæri þá takmarkaða ábyrgð eins og hér er gert ráð fyrir. Ég legg það til.

Ég vil endilega að nefndin skoði það hvort hér sé búið að opna fyrir það að fjármálaráðherra geti veitt ábyrgðir án þess að getið sé um það í lögum sérstaklega. Í eina tíð var mikil umræða í einmitt efnahags- og skattanefnd um ábyrgðir vegna Kárahnjúkavirkjunar og fleiri. Mér þykir mjög ánægjulegt að heyra það frá Vinstri grænum, hæstv. ráðherra, að Kárahnjúkavirkjun sé núna bjargvættur þjóðarinnar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)