139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

Landsvirkjun.

188. mál
[13:50]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður er einmitt að velta upp lausnatengdum hugmyndum um það hvernig hægt væri að ná betri sátt. Ég held að það sé grunnurinn að menn ræði þetta með þeim hætti.

Ég held að við komumst hins vegar ekki hjá því að horfa á að það eru líka deilur. Þó svo að meiri hluti þjóðarinnar sé fylgjandi umhverfisvænni orkuvinnslu er líka andstaða við það per se. Ef við ýtum því til hliðar og skoðum nákvæmlega þennan þátt sem hv. þingmaður nefnir er hann, ef ég skil hv. þingmann rétt, að tala um að það yrði boðið út. Þetta er kannski ekkert ósvipað og Hvalfjarðargöngin, að einkaaðilar bjóða í eitthvert verkefni. Þeir eiga það og fá tekjur af því í einhvern tíma, á móti kemur að þeir taka áhættuna. Eftir einhvern tíma rennur fjárfestingin til viðkomandi fyrirtækis sem væri þá í opinberri eigu og þar mundi framtíðarkynslóðin hafa tekjur af því. Ég held að þessi hugmynd sé svo sannarlega þess virði að fara yfir hana og skoða hana.

Við þurfum bara af fenginni reynslu að líta aðeins á, ef það færi illa, hvert reikningurinn færi. Við ætluðum ekki að fara ósvipaða leið varðandi tónlistarhúsið, þó að ég sé ekki sérfræðingur í því verkefni, en það er nú í fanginu á okkur og mig langar ekkert í fleiri slík verkefni í fang skattgreiðenda.

Ég held að hugmyndir hv. þingmanns og aðrar sambærilegar séu eitthvað sem við eigum að ræða. Stóra málið er að við viljum báðir takmarka ábyrgð skattgreiðendanna og þá er það spurningin: Hvernig gerum við það? (Forseti hringir.) Samt sem áður viljum við að skattgreiðendur hagnist á þessu öllu saman, það er hugsunin, bæði í nútíð og framtíð.