139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

Landsvirkjun.

188. mál
[14:00]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það eru ekki efni til að lengja þessa umræðu mikið. Það er ánægjulegt að þingmenn taka vel í frumvarpið. Ég tek undir með síðasta ræðumanni að ákaflega æskilegt væri að frumvarpið yrði afgreitt fyrir áramót þannig að ný lög um meðferð ríkisábyrgða gagnvart Landsvirkjun, og eftir atvikum Orkuveitu Reykjavíkur sem væntanlega verður tekið hér með, taki gildi á nýju ári. Þar með verði þessi deilumál við Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) leidd í jörð og úr sögunni.

Ég held að það sé varla tilefni til að fara meira út í þá almennu umræðu sem hér hefur sprottið um fyrirtækið eða orkumálin þó að það væri út af fyrir sig alveg á sínum stað. Ég held að ræði megi það með fullri virðingu fyrir ólíkum sjónarmiðum um einstök umdeild verkefni og þá aðallega af umhverfisástæðum en líka vissulega varðandi arðsemi. Það sem ég tel að sé sérstaklega spennandi og ég vísaði til fyrr í umræðunni er sú stefnumótun sem nú stendur yfir, ekki síst hjá Landsvirkjun sem fjármálaráðuneytið fyrir hönd eigendanna fylgist grannt með og teiknar til nýrrar framtíðar í þeim efnum. Ég hvet hv. þingmenn til að kynna sér það, t.d. afar fróðlega kynningu á því máli sem fór fram á stórum fundi á dögunum. Þar eru boðaðir breyttir tímar.

Útgangspunkturinn er sá að orkulindirnar séu takmarkaðar og við þurfum að átta okkur á þeirri staðreynd. Boðuð er sú áherslubreyting að fyrirtækið þrói sig frá því að vera bara framkvæmdafyrirtæki sem láti sér nægja að nái það samningum um raforkusölu í heildsölu til langs tíma, sem dugi fyrir framleiðslukostnaðinum og lágmarksarði á eigið fé, séu menn sáttir og framkvæmi. Sú þróun hefur auðvitað leitt til þess að fyrirtækið hefur skuldsett sig mjög hratt jafnóðum og eldri virkjanir hafa verið að borgast niður. Bara það að Landsvirkjun hægi á nýfjárfestingum og noti einhvern hluta framlegðar eða handbærs fjár frá rekstri til að lækka skuldir breytir stöðu fyrirtækisins hratt. Það hefur gerst núna tvö ár í röð að Landsvirkjun ráðstafar miklum tekjum — eftir að dregið hefur úr fjárfestingum í bili — í að greiða niður skuldir með handbæru fé úr rekstri sem núna stefnir í á þriðja hundrað milljónir dala á ári hverju.

Þróunin hefur orðið okkur hagfelld og það er fyrst og fremst tvennt sem þar skiptir sköpum. Orkuverð fer hækkandi og gerir léttara að ná verulegum hækkunum í samningum og endurnýjun eldri samninga. Það er auðvitað geysilega hagkvæmt þegar slíkir samningar nást vegna virkjana sem að verulegu leyti eru orðnar afskrifaðar. Álverð hefur líka haldist hátt, tiltölulega mjög hátt í sögulegu samhengi, þrátt fyrir uppdráttarsýki í efnahagsmálum víða í heiminum. Það er aðallega af tvennum ástæðum, annars vegar hefur haldist mikil eftirspurn eftir áli í Asíu og hins vegar hafa menn fært sig yfir í kaup á hrávörum og öðrum slíkum hlutum sem öruggari fjárfestingu við óvissar aðstæður. Talsverð birgðasöfnun í áli hefur átt sér stað en verð haldist hátt engu að síður.

Það er í sjálfu sér ekki flókin kúnst að reikna það út og margir bændur vita að eitthvert allra hagkvæmasta fyrirbæri undir sólinni er vel heppnuð, afskrifuð vatnsaflsvirkjun með sáralitlum rekstrarkostnaði og mikilli framlegð. Í tilviki vatnsaflsvirkjana er stofnkostnaðurinn mikill en rekstrarkostnaður mjög lítill þannig að um 80% af tekjum geta myndað framlegð frá rekstri. Hins vegar þarf auðvitað að greiða niður stofnkostnaðinn og á þeim tíma er arðgreiðslugeta eða skattgreiðslugeta fyrirtækjanna takmörkuð. Það breytist mjög hratt þegar skuldirnar lækka í ljósi þessara kennitalna sem eru mjög einkennandi fyrir rekstur á þessu sviði. Á komandi árum, Í tilviki Landsvirkjunar, á geta fyrirtækisins til að skila arði til eiganda síns, þjóðarinnar, að fara vaxandi. Það er þó að sjálfsögðu nokkuð háð því hversu hratt fyrirtækið heldur áfram í fjárfestingum og nýrri skuldsetningu samanber það sem ég áður sagði um kennitölur rekstrarins.

Sú framtíð sem þar blasir væntanlega við eru virkjanir í smærri áföngum og hægari skrefum en það sem að baki er. Fyrirtækið hefur þegar boðað þær áherslubreytingar í framtíðarplönum sínum. Búðarhálsvirkjun er vonandi að fara af stað og jafnframt hefur Landsvirkjun boðað að næsta svæði á eftir þeirri framkvæmd sé jarðhitinn eða háhitinn í Þingeyjarsýslum og hefur sett upp áætlanir um hvernig yrði virkjað í skrefum og áföngum. Þetta geta menn kynnt sér á heimasíðu fyrirtækisins.

Meira þarf ekki að segja um þetta ágæta, saklausa frumvarp um breytingar á ríkisábyrgð um Landsvirkjun. Næst á eftir því er á dagskrá frumvarp um nauðsynlegar breytingar á lögum um ríkisábyrgðir til að samrýmast því sem hér er á dagskrá.