139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

ríkisábyrgðir.

187. mál
[14:08]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það eru tvær spurningar. Önnur er varðandi ríkisábyrgðargjald. Það er þá munur á því trausti sem ríkissjóður nýtur og því trausti sem viðkomandi fyrirtæki nýtur. Það getur verið að fyrirtæki njóti meira trausts en ríkissjóður. Skuldatryggingarálag Íslands er núna tæplega 300 punktar og hefur lækkað mikið þrátt fyrir ósamið Icesave, sem átti víst að vera forsenda þess að það lækkaði. Það getur vel verið að sum fyrirtæki, eins og t.d. Landsvirkjun, séu með betra mat og þá mundu vextirnir eða þetta ríkisábyrgðargjald í raun verða neikvætt.

Svo er það önnur spurning. Innstæður á Íslandi eru 2.000 milljarðar að talið er og sumir telja að ríkisábyrgð sé á innstæðum. Ég vil spyrja hæstv. fjármálaráðherra að því hvort það geti verið að á Íslandi sé ríkisábyrgð á innstæðum þegar stjórnarskráin bannar ríkisábyrgð nema með sérstökum lögum.