139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

ríkisábyrgðir.

187. mál
[14:10]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Eins og við ræddum hér fyrr um ríkisábyrgðarmálin er það að sjálfsögðu algerlega í valdi fyrirtækis hvort það óskar eftir ríkisábyrgð á lánum sínum. Ef því bjóðast hagstæðari kjör eða jafngóð án ríkisábyrgðar mundi fyrirtækið væntanlega velja þá leið. Nú er ekki endilega svo að þetta snúist bara um kostnað við lántökur, stundum snýst þetta um aðgang að lánsfé. Það getur verið að fyrirtæki sem er með bakhjarl eins og ríki og getur boðið ríkisábyrgð á lán eigi stundum ósköp einfaldlega þess kost að fá lán sem ella fengjust ekki, óháð því á hvaða kjörum þau eru.

Staðan núna er sú að þegar Landsvirkjun er metin með ríkinu eða í ljósi þess að ríkið er eigandi fyrirtækisins og bakhjarl og veitir ábyrgðir á skuldbindingar þess, fer lánshæfismatið nokkurn veginn saman. Í svokölluðu sjálfstæðu mati eða „stand alone“ mati stendur fyrirtækið enn nokkuð lakar að vígi, a.m.k. hjá sumum matsfyrirtækjunum.

Það er að sjálfsögðu markmið Landsvirkjunar, sem ég skil heils hugar, að ná sjálfstæðu lánshæfismati sínu upp og það mun gerast á komandi árum. Það er enginn minnsti vafi á því í mínum huga að fyrirtækið á alveg inni fyrir því að lánshæfismat þess sem og auðvitað Íslands fari batnandi og ég held að við vitum öll hvað til þarf.

Innstæðurnar eru annars eðlis og hv. þingmaðurinn hlýtur að þekkja það vegna þess að margbúið er að ræða það hér á þingi, alveg frá því í október, nóvember 2008. Þar er um pólitíska stefnumarkandi yfirlýsingu stjórnvalda að ræða, ekki ríkisábyrgð í skilningnum ríkisábyrgðarlög eða annað í þeim dúr. Það er algerlega sjálfstæð pólitísk stefnumótun um að lendi fjármálastofnanir með innlán í vanda verði unnið úr þeirra málum þannig að innstæðunum verði borgið. Þannig hefur það verið gert allt frá falli stóru bankanna í október 2008 og með minni fjármálastofnanir (Forseti hringir.) sem síðan hafa lent í þrengingum en vonandi er þeim tíma nú lokið.