139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

ríkisábyrgðir.

187. mál
[14:13]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er einfaldlega þannig að fyrri ríkisstjórn, ríkisstjórn sem hv. þingmaður studdi, gaf út upphaflegu yfirlýsinguna um að innstæður yrðu tryggðar, yrðu varðar, þær yrðu ekki látnar tapast, jafnvel þó að bankar eða fjármálafyrirtæki með innlán lentu í vanda. Núverandi ríkisstjórn hefur haldið þeirri yfirlýsingu við og ítrekað hana. Eftir því sem á hefur þurft að halda hafa menn sótt lögheimildir til Alþingis til að tryggja þessa stefnu í framkvæmd, í fyrsta lagi með setningu neyðarlaganna og síðan í framhaldinu fengið heimildir til að leggja fjármálafyrirtækjum til nýtt eigið fé ef á þarf að halda og ef ríkið þarf að gera það en ekki aðrir aðilar. Þannig hefur yfirlýsingunni, stefnumörkuninni sem mótuð var í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar haustið 2008, verið fylgt í reynd og í framkvæmd enda ákaflega vandséð að hægt væri að hverfa frá henni upp úr þurru og búa þar með til mismunun eða misræmi í framkvæmdinni.

Við skulum vona að nú séum við að verða komin í gegnum þetta og getum smátt og smátt þróað það yfir í hefðbundið, venjubundið ástand. Hér er að koma fram frumvarp um nýtt fyrirkomulag innstæðutrygginga sem að sjálfsögðu á að leysa af hólmi slíkar allsherjar blankó yfirlýsingar og ég held að við hljótum öll að vera sammála um að í burtu frá þeim viljum við komast og að venjubundið ástand komist aftur á sem fyrst. Það hefur verið metið svo að á meðan við förum í gegnum brimskaflinn sé mikilvægt að svona yfirlýsing sé í gildi til að eyða allri óvissu og skapa stöðugleika og festu og þannig er það. Hún er að sjálfsögðu gefin í krafti þess meiri hluta sem stjórnvöld á hverjum tíma hafa til að tryggja framkvæmd á slíku, nákvæmlega eins í tilviki þessarar ríkisstjórnar og var í tilviki fyrri ríkisstjórnar.