139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

ríkisábyrgðir.

187. mál
[14:22]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Það er nú einmitt vandinn, frú forseti, eins og hæstv. ráðherra kom inn á, að þetta er svo óljóst. Yfirlýsing einhvers ráðherra — ég bendi hæstv. ráðherra á að hann er búinn að vera við völd í dálítinn tíma og hann ber ábyrgð á því sem gert hefur verið á þeim tíma, jafnt yfirlýsingum sem öðru, og getur ekki alltaf vísað í einhverja gamla sögu eins og hann gerir iðulega. Til dæmis tóku Írar þá ákvörðun að lýsa yfir ríkisábyrgð á öllum skuldbindingum bankanna. Það skekkti náttúrlega markaðinn í Evrópu þannig að fjármagnseigendur og heimili fóru með sínar innstæður til Írlands, frá Bretlandi t.d. og Bretar mótmæltu því, á sama tíma og þeir gerðu kröfu til þess að íslenskir skattgreiðendur greiddu allar ábyrgðir en það er önnur saga.

Mér þætti miklu eðlilegra að þetta væri klippt og skorið. Það er ríkisábyrgð á seðlum t.d. Þeir sem taka út innstæður og geyma þær undir koddanum eru með ríkisábyrgð. Þeir fara úr kerfi þar sem eru vextir og óljós pólitísk skoðun eða stefna og yfir í það að vera með vaxtalausa ríkispappíra, það er ríkisábyrgð á seðlum gegnum Seðlabankann, og sætta sig jafnvel við enga vexti og áhættu af því að geyma peningana undir koddanum, það gæti komið þjófur að nóttu. Sumir kaupa bankahólf og minnka áhættuna þannig, aðrir kaupa ríkispappíra, ríkisvíxla til þess að flýja þessa áhættu, þeir sem það óttast. Menn hafa mismunandi mikla öryggisþörf og sérstaklega þeir sem eru búnir að tapa miklu eins og í hlutabréfum, hjá þeim vex öryggisþörfin og þeir væru örugglega til í það að borga eitthvert gjald til ríkisins. Mér þætti miklu hreinlegra að menn vissu að þarna væri innlánsreikningur með ríkisábyrgð, hann er ígildi peninga, og að annars staðar væri innlánsreikningur sem er ekki með ríkisábyrgð.