139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

opinber innkaup.

189. mál
[14:27]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er full ástæða til að fagna framkomu þessa frumvarps, það er í takt við tímana þar sem við lifum æ landamæralausari heim þar sem viðskipti geta verið þvert á landamæri. Við á Íslandi búum auðvitað við smáan heimamarkað, aðeins 0,3 milljónir manna, og eðlilegt að við sköpum sérstaklega kannski Landspítalanum sem hér er vitnað til í stórum innkaupum á lyfjum færi á því að leita samstarfs, ekki síst til Norðurlandanna, þaðan sem höfum við góða reynslu af samstarfi við og eigum ýmis færi á að starfa með heilbrigðisstofnunum sem eru uppbyggðar í samfélögum sem eru að mörgu leyti áþekk okkur. Með slíku samstarfi getum við náð því að spara verulega fjármuni og nýta það fé sem til ráðstöfunar er til að veita sem allra besta þjónustu. Ég held að um þetta markmið málsins hljóti að vera þverpólitísk samstaða, enda hafa ráðherrar bæði af hægri og vinstri kanti stjórnmálanna, held ég, talað fyrir því að við nýtum samstarfið við Norðurlöndin einmitt í tilgangi áþekkum þessum og gætum á fleiri sviðum, svo sem eins og í lyfjaeftirlitinu og lyfjastofnunarstarfinu, haft nokkurt hagræði af samstarfi við nágrannalönd okkar.