139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

opinber innkaup.

189. mál
[14:29]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég get tekið undir með síðasta ræðumanni, hv. þm. Helga Hjörvar, að auðvitað hlýtur maður að fagna sparnaðar- og hagræðingarviðleitni í frumvörpum sem flutt eru í þinginu. Hins vegar vil ég hafa þann fyrirvara á gagnvart þessu frumvarpi að mér finnst ýmsum spurningum ósvarað og geri ég ráð fyrir að hv. efnahags- og skattanefnd muni fara vel yfir það, sérstaklega í ljósi þess að frumvarpið er allopið að mörgu leyti.

Hér hafa bæði hæstv. ráðherra og hv. þm. Helgi Hjörvar vísað sérstaklega til lyfjamála og heilbrigðismálanna en frumvarpið sem slíkt er engu að síður ekki bundið við þá málaflokka heldur galopið. Þannig er hugsanlegt að þó að rót þessa máls, sem ég svo sem þekki ekki, liggi nákvæmlega í einhverjum möguleikum sem menn hafi séð á þessu tiltekna sviði og um sé að ræða almenna reglu sem sé ágæt á öllum sviðum. Menn verða þá að skoða frumvarpið og hugsanleg áhrif þess út frá þeim sjónarmiðum.

Í annan stað set ég ákveðið spurningarmerki við það að hæstv. fjármálaráðherra hafi opnað heimild af þessu tagi. Það fyrirkomulag sem við byggjum á í sambandi við opinber innkaup sem raunar er sniðið að evrópskri fyrirmynd gerir ráð fyrir því að ákvörðunarvald í málefnum af þessu tagi sé að mestu leyti fært frá hinum pólitísku ráðamönnum til sérhæfðra stofnana með ákveðnum kæruleiðum og þess háttar. Ég sé ekki að það séu nein takmörk á því hvaða ákvarðanir ráðherra getur tekið í þeim efnum. Það er atriði sem ég tel að þurfi að huga að í þessu sambandi, hvort heimildir ráðherra séu óbundnar. Án þess að ég vilji væna nokkurn mann um að fara í geðþóttaákvarðanir á þessu sviði þá verða að vera fyrir hendi einhverjar leikreglur sem menn geta gengið að því að um getur verið að ræða verulega hagsmuni á alla enda og kanta.

Í þriðja lagi tel ég nauðsynlegt í nefndarstarfinu, hugsanlega getur hæstv. ráðherra upplýst um það í umræðunni, að horft sé til þess hvernig framkvæmdin er hjá nágrannaríkjunum hvað þetta varðar. Í frumvarpinu eða greinargerðinni er ekki vísað til þess þannig að spurning er hvort leitað er fyrirmynda einhvers staðar um þetta og ef svo er þá er hugsanlega hægt að vísa til einhverrar reynslu sem er af slíku fyrirkomulagi, en komi það ekki fram í þessari umræðu er það atriði sem hv. efnahags- og skattanefnd hlýtur að skoða.

Loks held ég að við hljótum aðeins að velta fyrir okkur lögsögureglum í þessu sambandi sem geta t.d. snúist um rétt þeirra aðila sem telja með einhverjum hætti á sig hallað í sambandi við mál af þessu tagi. Það er auðvitað ljóst að gert er ráð fyrir að lög þess ríkis þar sem útboð fer fram gildi og spurningin er hvaða áhrif það hefur á réttarstöðu þeirra, hugsanlega innlendra aðila, sem í hlut eiga.

Í fljótu bragði eru nokkur atriði sem þarf að skoða gaumgæfilega. Það þarf líka að huga að spurningum eins og hvort breytingar af þessu tagi muni hugsanlega hafa önnur og víðtækari áhrif en gert er ráð fyrir. Hér hefur lyfjasviðið verið nefnt sérstaklega. Það má velta fyrir sér, bara svo við tökum það svið eitt fyrir af því að það er gert í greinargerð með frumvarpinu að sparnaður kunni að nást í innkaupum, hvort annar kostnaður þurfi að koma til svo sem vegna birgðahalds eða lagerhalds sem sá aðili sem kaupir inn þurfi þá að taka á sig sem innlendir aðilar, einkafyrirtæki, hafa með höndum í dag. Það er atriði sem þarf að koma til af því að lyfjamálin hafa verið nefnd sérstaklega og það þarf að meta í einhverju samhengi.

Að síðustu, hæstv. forseti, vil ég nefna að það þarf líka að glöggva sig á því í hvaða tilvikum þetta felur raunverulega í sér einhverja veigamikla breytingu frá því sem nú er í ljósi þess að fyrir hendi eru heimildir og skylda í mörgum tilvikum að bjóða innkaup hins opinbera bæði á vörum og þjónustu út á hinu Evrópska efnahagssvæði. Það þarf að meta í hvaða tilvikum þetta kemur til með að hafa raunveruleg áhrif og þá hvernig.

Eins og ég sagði er nú skylda að bjóða út á hinu Evrópska efnahagssvæði innkaup bæði á vörum og þjónustu sem eru yfir tilteknum mörkum, sem ég man hér standandi í ræðustól þingsins ekki hver eru, en ég geri ráð fyrir að þetta muni leiða til breytinga og það er þáttur sem þarf að meta í störfum nefndarinnar. Ég hygg að hv. efnahags- og skattanefnd hljóti að fara yfir það og þó að frumvarpið láti lítið yfir sér fyrsta kastið þá vek ég athygli á því að áhrif þess geta verið víðtæk og á miklu fleiri sviðum kannski en nákvæmlega eru tilgreind í skýringum með frumvarpinu eins og það liggur fyrir.