139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

opinber innkaup.

189. mál
[14:36]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er mjög gagnlegt að þingnefndin fari yfir þau atriði sem hv. þingmaður nefndi í máli sínu. Ég er alveg sammála honum um það. Að sjálfsögðu þarf að fara vel yfir það, t.d. lagaskilamálin og þá stöðu sem aðilar eru í ef heimildin er nýtt og farið verður í stórt sameiginlegt útboð sem færist þá undir lögsögu þess ríkis þar sem útboðið fer fram.

Það er ekkert launungarmál að það er fyrst og fremst áhugi heilbrigðisyfirvalda og Landspítalans að gera þessa tilraun, ef við getum kallað það svo, til að ná niður kostnaði við tiltekin lyf og/eða auðvelda sér að taka inn ný og dýr lyf þar sem íslenski markaðurinn er kannski ekki til staðar eða mjög lítill og útboð þar af leiðandi í allt öðrum stærðum en menn eiga að venjast í hinum stóra heimi. Umfang heilbrigðisgeirans í Noregi er um það bil fimmtánfalt það íslenska og upp í tuttugufalt þegar kemur að Danmörku og Finnlandi og enn þá meira í Svíþjóð þannig að við erum þá að tala um þátttöku í margfalt stærri útboðum þar sem stærðarhagkvæmni ætti að geta skilað betri verðum.

Þessi áhugi er fyrst og fremst kveikjan að þessu máli. Verið er að búa til þröngan og tiltölulega mjög vel skilgreindan undanþágufarveg og ástæðan fyrir því að þetta er haft á þann hátt er m.a. sú að menn verði að leggja fram rökstudda beiðni í hverju tilviki. Að sjálfsögðu verður engin heimild veitt fyrir einhverju sem enginn hefur áhuga á. Kveikjan að því að á þetta reyndi yrði alltaf sú að einhverjar stofnanir, eins og Landspítalinn og Ríkiskaup, yrðu sammála um að það væri hagstætt eða a.m.k. tilraunarinnar virði að gera tilraun um þátttöku í einhverju stóru sameiginlegu útboði með t.d. systurstofnun Landspítalans eða miðlægri innkaupastofnun í öðru landi.

En ég endurtek að það er gagnlegt að þingnefndin fari vel yfir skilgreiningaratriði í þessum efnum.