139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[15:11]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir greinargerðina. Þegar upp var lagt í þennan erfiða leiðangur var nokkurt sammæli um að hvorki væri svigrúm til að bæta í laun né lífeyrisgreiðslur. Þess vegna er í þessum bandormi tillaga um áframhaldandi frystingu á lífeyri almannatrygginga til öryrkja og aldraðra.

Nú ber hins vegar svo við að frá hruni hafa ýmsir aðrir hópar fengið hækkanir, svo sem ýmsir sérfræðihópar og bændur, einstaka taxtar á hinum almenna launamarkaði og á hinum opinbera og nú eru uppi kröfur um hækkanir á launum fyrir komandi ár. Ég vil þess vegna spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki séu sammæli um að þó að það sé lítið svigrúm til að gera vel við nokkurn eigi kjör aldraðra og öryrkja að taka sömu hækkunum og annarra hópa í samfélaginu á þessum erfiðu tímum. Einmitt þessir hópar búa kannski við hvað erfiðastar aðstæðurnar.