139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[15:17]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Að sjálfsögðu er enginn að gera neitt af því sem hér er lagt til að gamni sínu en hv. þingmenn verða líka að horfast í augu við það að hinum megin er mikið í húfi. Það mun tvímælalaust skila sér til baka á komandi árum í traustari forsendum ríkisbúskaparins, minni vaxtakostnaði og betri hagvaxtarforsendum ef við náum hratt tökum á fjármálum hins opinbera. Það sýnir reynsla allra sem gengið hafa í gegnum þessa hluti. Nærtækt er t.d. að skoða hvernig þetta þróaðist í Svíþjóð í kjölfar kreppunnar þar. Þar er það almannarómur og ekki um það deilt, a.m.k. ekki að ráði að ég tel meðal fræðimanna, að sú aðferð sem Svíar fóru, að hafa framsækið prógramm og takast fljótt á við vandann, skilar sér hratt til baka. Það er lauslega áætlað að vísitöluáhrifin séu um 0,2%, sem sagt mjög óveruleg, og það leiðir af þeirri aðferð sem hér er fyrst og fremst valin, að fara í sértæka skatttekjuöflun sem ekki hefur umtalsverð vísitöluáhrif. Þau eru til muna minni en voru í ráðstöfunum í fyrra og það er rétt að minna (Forseti hringir.) enn og aftur á að þungi útgerðanna að þessu sinni, um 32 milljarðar kr., liggur á útgjaldahliðinni.