139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[15:19]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra sagði að þungi tillagnanna lægi nú á útgjaldahliðinni, 32 milljarðar kr., og þá vil ég minna hæstv. ráðherra á að hann hefur sennilega ekki þingmeirihluta fyrir fjárlagafrumvarpinu sem við erum að fara í gegnum í fjárlaganefnd þessa dagana. Margir stjórnarliðar hafa lýst því yfir að þeir muni ekki styðja það þannig að ekki er sjálfgefið að það verði 32 milljarðar kr.

Ég er hins vegar alveg sammála hæstv. ráðherra um að það er mjög mikilvægt að ná tökum á halla ríkissjóðs, það er gríðarlega mikilvægt og ég tek undir það með honum. Mér finnst hæstv. ráðherra ekki vilja viðurkenna það, þó að öll ljós bendi til þess, að allar þessar skattahækkanir sem hafa gengið yfir okkur núna, bæði á þessu ári og væntanlega á því næsta, skila sér ekki. Skattstofnarnir eru að skreppa saman og ég ítreka að tekjur á einstaklinga eru rúmum 6 milljörðum kr. undir núna fyrstu níu mánuði ársins, 6,4 milljörðum. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra: Efast hann aldrei um að hann sé á réttri leið og að þetta muni ekki skila sér, að þessar skatttekjur (Forseti hringir.) sem hann áætlar að komi núna á árinu 2011 muni einfaldlega ekki skila sér?