139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[15:21]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég get varla þakkað hæstv. ráðherra fyrir ræðuna eða frumvarpið. Hér er aftur höggvið í sama knérunn og áður, að skattleggja og skattleggja og segja upp og segja upp og minnka alltaf kökuna.

Það eru til þrjár leiðir til að laga stöðu ríkissjóðs. Ég tek undir að það er mjög mikilvægt að hafa í huga, þ.e. að hækka skatta, skera niður og stækka kökuna, auka atvinnuna í landinu. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hefur hann engar áhyggjur af því að 10 manns á dag flytja til útlanda? Það er auðlegð þjóðarinnar, mannauðurinn, sem fer úr landi. Það eru til leiðir, við höfum bent á þær, það má auka kvótann, skattleggja séreignarsparnaðinn og rétt áðan benti ég á þann möguleika að selja Landsvirkjun. Þá þyrftum við ekki að skattleggja heimilin úr landi. Ég lít á þetta sem afskaplega hættulegt merki, brottflutninginn, og ég held að við séum að stefna í stöðnun.