139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[15:24]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mig undrar að hæstv. ráðherra beri sig alltaf saman við það versta sem við þekkjum. Það fólk sem fer til Svíþjóðar og Noregs til að leita sér að vinnu flýr atvinnuleysi á Íslandi. Við flytjum út atvinnuleysi í formi fólks. Það kemur ekki allt til baka, það er reynslan. Ég hef verulegar áhyggjur af þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar að skattleggja og segja upp fólki sem verður atvinnulaust af því að það eru engin atvinnutækifæri til staðar. Það er allt í lagi að segja upp og minnka kostnað ríkissjóðs ef rífandi vinna er alls staðar, en það er ekki þannig. Stefna ríkisstjórnarinnar er að skattleggja sig út úr vandanum í stað þess að auka atvinnu með þeim leiðum sem sjálfstæðismenn hafa bent á aftur og aftur, allan tímann. Það er ekki gert.

Ég skora á hæstv. ráðherra að skoða það að skattleggja séreignarsparnaðinn, hætta að skattleggja heimilin. Það gerði 80 milljarða kr. fyrir ríkissjóð og 40 milljarða kr. fyrir sveitarfélögin, ekki veitir af á þeim bæ. Hins vegar á að selja Landsvirkjun. Það er þess virði í dag.