139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[15:25]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Við höfum áður rætt þetta mál með Landsvirkjun og ég endurtek að það væri u.þ.b. það óskynsamlegasta sem hægt væri að gera, að fara að glutra henni út úr höndunum á okkur. Ætli það verði ekki m.a. hún sem mun auðvelda okkur að borga niður skuldir á komandi árum með vaxandi skatt- og arðgreiðslum í ríkissjóð eins og hún á að hafa alla burði (Gripið fram í.) til að fara að gera?

Auðvitað vill enginn atvinnuleysi, auðvitað viljum við skapa störf, auðvitað er ekki gaman að þurfa að hækka álögur. En hvað vill hv. þingmaður gera? Er þetta mjög ábyrg tillaga, þetta með séreignarsparnaðinn, (Gripið fram í: Já.) að seilast í einu lagi inn í hann? Hvað vill þá hv. þingmaður gera? Lækka aðra skatta á móti eða skera ekki niður? (Gripið fram í.) En hvað ætlar þá hv. þingmaður að gera þegar séreignarsparnaðurinn verður búinn? (PHB: Þá getur fólk borgað skatta.) Við þurfum að ná jafnvægi í þessum undirliggjandi hlutum. Við komumst ekki undan því. Auðvitað getum við keypt okkur tíma. Ef við viljum reka ríkissjóð með meiri halla er ekkert vandamál að fjármagna hann. Það er hægt að gera það á markaði í dag með góðum kjörum en ég tel það óábyrgt. Hvað erum við að gera ef við sættum okkur við bullandi áframhaldandi hallarekstur og skuldasöfnun? (Forseti hringir.) Við erum að senda reikninginn inn í framtíðina. Við erum að senda hann á börnin okkar. Ég á síður von á því að heyra sjálfstæðismenn koma hingað upp (Forseti hringir.) og mæla með því. (Gripið fram í: … Íslandi.) (Gripið fram í.)