139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[15:26]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að hv. þm. Pétur H. Blöndal hafi kannski komið nálægt kjarna málsins áðan þegar hann talaði um að mikilvægasta verkefnið til að bæta tekjugrundvöll ríkissjóðs væri sá að stækka kökuna sem við höfum til skiptanna. Því miður er ekkert í þessu frumvarpi sem bendir til þess að ríkisstjórnin hafi skilning á því verkefni. Því miður kemur ekkert annað frá þessari ríkisstjórn sem bendir til þess að það sé skilningur á því verkefni, öðru nær.

En það er annað atriði sem ég ætlaði að spyrja hæstv. fjármálaráðherra um. Í tekjuforsendum þessa frumvarps og fjárlagafrumvarpsins er gert ráð fyrir að þær breytingar og heildarskattlagning á þær leiðir sem þarna eru undir muni skila tilteknum upphæðum miðað við forsendur sem fjárlagafrumvarpið byggir á, m.a. um hagvöxt. Mig minnir að það séu 3,2% í fjárlagafrumvarpinu. Nú eru flestir aðilar sem fjalla um þessi mál sammála um að gera megi ráð fyrir mun minni hagvexti (Forseti hringir.) en þarna kemur fram. Hefur það ekki áhrif á forsendur þessa frumvarps?