139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[15:28]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Jú, herra forseti. Svarið við þessari stórgáfulegu spurningu er: Jú. Að sjálfsögðu hafa þjóðhagsforsendurnar og þróun þeirra mála áhrif og með því síðasta sem gert er þegar fjárlagafrumvarpið er stemmt af og því lokað er að endurreikna tekjuáætlunina í ljósi bestu og fáanlegustu upplýsinga sem eru þá annars vegar yfirleitt ný þjóðhagsspá og hins vegar upplýsingar úr ríkisbókhaldinu sjálfu og mat á því hvernig tekjur hafa t.d. þróast á síðari hluta ársins. Ef við gerum ráð fyrir því að frávik frá eldri spám, frá spám vorsins, hjá Hagstofunni verði svipað og hjá Seðlabankanum, þar var dregið úr hagvaxtarspánni fyrir næsta ár um 1% eða þar um bil. Það eru þó vissar vísbendingar um að staðan sé á móti heldur betri nú á síðari hluta ársins sem kemur þá nokkuð til góða, þ.e. hagkerfið er þá heldur stærra í lok ársins en menn höfðu reiknað með. Þó að vöxturinn verði minni á næsta ári hefur það minni áhrif til fráviks ef svo er. Þetta (Forseti hringir.) höfum við ekki nákvæmlega allt í höndunum enn þá en ég tel að það séu ágætar líkur á því að frávikið sé innan skekkjumarka ef það verður á svipuðum slóðum, það sem kemur frá Hagstofunni innan fárra daga, (Forseti hringir.) og spár Seðlabankans.