139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[15:32]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vildi byrja á því að deila nokkuð bjartsýni með hæstv. fjármálaráðherra. Ég held að við eigum að leitast við að sjá það jákvæða sem fram undan er og þann árangur sem náðst hefur í ríkisfjármálunum og reyna að láta ógert að mála skrattann á vegginn að óþörfu því að næg höfum við tilefnin til að lýsa erfiðleikum og vandkvæðum þó við séum ekki að ýkja þau eða bæta við.

Ég held að þótt hér þurfi auðvitað ýmsar erfiðar ákvarðanir að taka sé það mikilvæga að við erum komin yfir langversta hjallann í skattamálunum. Sá hjalli er ekki til umfjöllunar núna. Hann tókum við á síðastliðnu ári þar sem í raun og veru voru leiðréttar þær röngu ákvarðanir sem við tókum í þinginu á árunum fyrir hrun. Skattar sem við héldum í barnslegri einfeldni okkar að við hefðum efni á að aflétta voru teknir upp að nýju á síðasta ári. Þar áður höfðu skattar verið lækkaðir verulega á fullkomlega óraunsæjum forsendum. Það var þess vegna gríðarlega mikið átak á síðastliðnu ári að leiðrétta þá tekjustöðu ríkissjóðs. Þá voru skattahækkanirnar miklar og þær voru tilfinnanlegar. Þær vörðuðu m.a. neysluskatta og líka tekjuskattana.

Það sem við höfum núna í ár á skattahliðinni er miklu minna skref, í raun og veru aðeins brot af því sem gert var á síðastliðnu ári. Ég hygg að hér sé um að ræða um það bil 0,5% af landsframleiðslu meðan aðgerðirnar á síðastliðnu ári voru hátt í 4% eða áttfalt meiri en hér er um að ræða. Það er því mikilvægt að hér sé öllum ljóst að þessar breytingar eru fremur óverulegar miðað við það stóra skref sem var tekið í fyrra enda auðvitað ekki mikið svigrúm fyrir hendi. Aðgerðirnar í fyrra voru öllum almenningi þungar og erfiðar. Það er því gríðarlega mikilvægt í þessum aðgerðum að hér tekst að hlífa tekjuskatti einstaklinga. Það sem snertir verðlag í landinu eru einkum verðlagsuppfærslur og áhrifin á verðlag í landinu eru mjög óveruleg, miðað við það sem við fundum í fyrra, og ég hygg að sé um 0,2% þegar allt er tekið til.

Þetta hefur auðvitað tekist m.a. með því að nýta þann mikla styrk sem er í séreignarsjóðunum og ber talsverðan hluta af tekjuþörf ríkissjóðs á næsta ári. Þetta tókst líka með því að skattleggja arð, fjármagnstekjur og hagnað fyrirtækja í nokkuð meiri mæli en gert var á undanförnum árum og með því að taka upp umhverfis- og auðlindagjöld. Þannig mátti hafa tekjur fyrir ríkissjóð sem gerðu það að verkum að ekki þurfti að leggja eins miklar byrðar á almenning og launafólk í landinu, eða þyngja tekjuskattinn eða virðisaukaskattinn og aðra skatta sem lenda á almenningi eins og annars hefði þurft. Það er ein ástæðan fyrir því að það tekst þó, þrátt fyrir erfiðar aðstæður, að hlífa ótrúlega mikið einstaklingunum, launatekjum og verðlagi í þeim aðgerðum sem hér eru undir.

Þær aðgerðir sem hæstv. ráðherra hefur mælt fyrir og hér hafa verið nefndar lúta að því að fara á tekjur annarra hópa en launafólks og ekki á neysluskattana í landinu sem mundu auðvitað lenda beint á heimilunum. Aðgerðirnar lúta í fyrsta lagi að því að breikka nokkuð stofninn í auðlegðarskattinum og hækka lítið eitt prósentuna þannig að þeir sem sterkasta stöðu hafa í samfélaginu núna eftir hrunið leggi tímabundið nokkuð af mörkum í þeirri erfiðu glímu sem ríkisfjármálin eru. Ýmsir höfðu uppi hrakspár um þennan skattstofn á síðasta ári en útkoman úr honum á þessu ári er hins vegar algerlega eftir væntingum og ef ekki eilítið betur en það. Ég held þess vegna að engin ástæða sé til annars en vera bjartsýnn á að þessi hópur muni á næsta ári eins og þessu taka þátt í endurreisninni með því að taka á sig sérstakar byrðar enda fólk sem alla jafnan er í færum til þess með verulegar, hreinar eignir öðru hvorum megin við 100 millj. kr. Í öðru lagi er farið lítils háttar upp með fjármagnstekjuskattsprósentuna og sömuleiðis með skatt á hagnað fyrirtækjanna upp í 20%. Þetta eru hvorir tveggja skattar sem mikilvægt er að verði ekki of háir en þessi breyting úr 18 í 20% mun ekki ríða baggamuninn í einu eða neinu en mun hjálpa til við að loka því gati sem er á tekjuhliðinni.

Síðan er um að ræða kolefnisskattinn en hann er aukinn svo að hann endurspegli ekki helminginn af verði losunarheimilda í Evrópu heldur 75% og hækkar þannig um helming. Mín vegna mætti sannarlega fara alla leið í því og láta þann skatt einfaldlega nema verðmæti losunarheimildanna í Evrópu. Ég treysti því að frekari skref verði tekin til þess á næstu árum vegna þess að þessi skattur gegnir auðvitað því einfalda hlutverki að menn greiði fyrir losun sem þeir valda. Það er einfaldlega eðlileg hugsun í þeim heimi sem við búum í og stríðir við geigvænlegar afleiðingar af losun gróðurhúsalofttegunda. Það þarf m.a. að beita sköttum og gjöldum til að draga úr því og koma í veg fyrir allra dekkstu hliðarnar á áhrifum loftslagsbreytinga á heiminn og það umhverfi sem komandi kynslóðir munu búa við á Íslandi.

Þrír milljarðar munu trúlega koma af skattlagningu séreignarsparnaðar og eðlilegt að rætt sé hvort lengra mætti ganga í því efni. Við Íslendingar njótum nokkurrar sérstöðu í því hversu vel við höfum lagt fyrir í lífeyriskerfið okkar, bæði í söfnunarsjóðina almennu en líka hvað varðar þá miklu fjármuni sem byggðust upp í séreignarsjóðunum áður.

Sú hækkun sem verður á verðlagsgjöldum — olíugjaldi, áfengisgjaldi, tóbaksgjaldi og öðrum slíkum, er fyrst og fremst til að fylgja eftir verðlagsþróuninni sem orðið hefur. Það er rétt að sum þeirra leiða til að nokkuð dregur úr neyslu en sum þeirra eru auðvitað líka til þess hugsuð. Það getur þó verið viðkvæmt, sérstaklega hvað áfengið varðar, og verður að gæta þess að skattlagningin keyri ekki svo úr hófi fram að hún hvetji mjög til ólögmætrar starfsemi eða leiði til neyslu ólögmætra vímuefna í stað þeirra sem verið er að skattleggja. Mér sýnist ekki á þeim tölum sem við höfum fyrir yfirstandandi ár að salan hafi gefið það mikið eftir að ástæða sé til að hafa stórkostlegar áhyggjur. Full ástæða er þó til að fara vel yfir það í efnahags- og skattanefnd hvaða áhrif gjöldin á þessar vörur hafa haft á eftirspurnina.

Þar væri sömuleiðis tilefni til að skoða nokkuð gjöldin á bensín annars vegar og dísil hins vegar. Þegar við tölum um græna skatta og umhverfismarkmið í sköttum þá hefur verið fundið að því að hér sé ekki nægilega að gert til að hvetja fólk til notkunar á dísli með því að gera það umhverfi hagstæðara. Ég held að tilefni sé til að gera aftur það sem menn hafa áður gert, að gera samanburð á opinberri álagningu á bensín og dísil, nú þegar verið er að gera breytingar á þeim gjöldum.

Það sem er fyrst og fremst til þess fallið að valda áhyggjum í þessum aðgerðum eru þeir þættir sem snúa að barnabótum og vaxtabótum sem og frystingin á lífeyri almannatrygginga sem nefnd var áðan. Ég hafði nokkur orð í andsvari um frystinguna á lífeyri almannatrygginga. Ég ítreka það sjónarmið að ég held að fólk úr öllum flokkum hafi verið sammála um það eftir efnahagshrunið 2008 að Ísland væri í þeim miklu erfiðleikum að ekki væru færi til að hækka laun, lífeyri eða aðrar bætur. Á þeim grunni hafi sú stefna verið mörkuð að gera það ekki. Nú er hins vegar ljóst að ýmsir hópar hafa fengið einhverjar hækkanir og allir hafa út af fyrir sig orðið fyrir kaupmáttarrýrnun. Það er mikilvægt að við á löggjafarþinginu stöndum sérstaklega vörð um þá hópa sem ekki hafa sjálfstæðan samningsrétt heldur verða einvörðungu á okkur að treysta. Í umfjöllun um þetta frumvarp í efnahags- og skattanefnd verðum við því að fara yfir þróunina hjá öðrum hópum frá hruni og sömuleiðis yfir þá kröfugerð sem væntanlega mun koma fram í almennum kjarasamningum. Sannarlega treystum við því að þær kjarabætur sem hugsanlega semst um í slíkum kjarasamningum nái líka til öryrkja og aldraðra sem eru meðal þeirra hópa sem sérstaklega þarf að gæta að.

Hæstv. ráðherra vék að vaxtabótaþættinum og fram kom að hæstv. ráðherra og ríkisstjórnin öll er að skoða breytingar á stuðningi við skuldsett heimili í landinu sem mundu geta orðið til þess, þó að ekkert sé afráðið í því, að ekki yrði um að ræða niðurskurð á vaxtabótum á komandi ári heldur jafnvel allnokkra aukningu. Það væri sannarlega vel ef færi reynast á að koma til móts við skuldsett heimili með myndarlegum hætti í aðgerðum sem fyrirhugaðar eru fyrir þau, því sannarlega er á því þörf. En hvað barnabótunum viðkemur þá helgast þær aðgerðir trúlega að mestu af því að þar var um að ræða ótekjutengdar greiðslur sem voru settar inn á allra síðustu missirum góðærisins þegar við töldum okkur hafa efni á ýmsu í ríkisfjármálunum sem við höfum ekki reynst hafa efni á. Því er farið í tekjutengingar sem leiða til lægri útgjalda en ætlað var. Ég vil undirstrika að hér þarf þingið og ríkisstjórnin að sjálfsögðu að fara ákaflega varlega því það sýndi sig í nágrannalöndum okkar sem glímdu við kreppu, m.a. í Svíþjóð og Finnlandi, að eftir að kreppunni lauk og endurreisnarstarfinu áttuðu menn sig á að þeir sem helst lentu undir voru börnin og barnafjölskyldurnar. Það er þess vegna sérstök ástæða til að vera á varðbergi og fara vel yfir þær aðgerðir í frumvarpinu og sömuleiðis í nefndarstarfinu.

Ég held að við getum almennt sagt að sannarlega hafa ríkisfjármálin og leiðrétting þeirra verið erfiður leiðangur fyrir alla sem að honum hafa komið, fyrir ríkisstjórnina, fyrir hæstv. fjármálaráðherra sem hefur þurft að bera hitann og þungann af þessu, fyrir þingið en ekki síst fyrir almenning og fyrirtækin í landinu. Það er auðvitað erfitt að þurfa, mitt í almennri kaupmáttarskerðingu, mitt í því þegar umsvifin eru að minnka, neyslan minnkar og viðskiptin minnka, að taka á sig hærri prósentur í sköttum. En það var óhjákvæmilegt. Það var algerlega óhjákvæmilegt vegna þess að þær prósentur sem hér voru voru algerlega óraunsæjar. Þær stóðu ekki undir rekstrinum sem þarf í samfélagi okkar. Ef ekki hefði verið farið í hærri prósentur hefði það leitt til enn hraðari skuldasöfnunar ríkissjóðs og þar með enn hærri vaxtagreiðslna sem er vítahringur sem getur gengið svo langt að ekki er hægt að brjótast út úr honum. Þess vegna er grundvallaratriði að við ljúkum núna þessu minna skrefinu, miklu (Forseti hringir.) minna skrefi en í fyrra til að tryggja traustar undirstöður ríkisfjármálanna til framtíðar.