139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[15:48]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir yfirferðina sem var nokkuð greinargóð og fín þó að ég sé algerlega ósammála hv. þingmanni um að nauðsynlegt hafi verið að ráðast í þessar skattahækkanir sem við fórum í í fyrra. Mér fannst hv. þingmaður orða það mjög vel að það hefði verið mjög erfitt á þeim tímum að fara í skattahækkanir á sama tíma og laun fjölskyldunnar drógust saman. Hann taldi það óhjákvæmilegt en ég er alls ekki sammála því og mun fara frekar yfir það í ræðu á eftir.

Gangi þetta frumvarp eftir munu ráðstöfunartekjur heimilanna minnka um 8,7 milljarða kr. á árinu 2011. Því vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann hafi ekki verulegar áhyggjur af því að heimilin í landinu þoli ekki frekari kjaraskerðingu, eins og við vitum flest eða þykjumst vita. Hver er skoðun hv. þingmanns á því? Hræðist hann ekki að heimilin standi ekki undir þessari tekjuskerðingu?

Hv. þingmaður kom líka inn á það í andsvari við hæstv. fjármálaráðherra áðan að ekki er gert ráð fyrir því að það séu verðlagsbætur á lífeyri. Í frumvarpinu er heldur ekki gert ráð fyrir neinum launahækkunum hjá ríkinu. Ég er að sjálfsögðu sammála hv. þingmanni um að ef menn hækka laun hjá ríkinu eigi lífeyririnn líka að fylgja þannig að ég spyr hv. þingmann hvort hann muni þá samþykkja það einhvern tímann að það verði farið í launahækkanir til ákveðinna ríkisstarfsmanna meðan lífeyririnn er hugsanlega látinn sitja eftir. Við heyrum þessa dagana miklar kröfur hjá mörgum hagsmunahópum um að það sé nauðsynlegt að rétta þeirra hag. Það eru gerðar kröfur um að laun þeirra verði hækkuð og þess vegna finnst mér mjög mikilvægt að það komi skýrt fram hvort hv. þingmaður mundi hugsanlega styðja það að laun sumra ríkisstarfsmanna yrðu hækkuð en lífeyririnn (Forseti hringir.) skilinn eftir.