139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[15:50]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ekkert að vanbúnaði að tala alveg skýrt um samspil launa og lífeyris ef hópar í samfélaginu hljóta launahækkanir. Hvort sem það er á almenna markaðnum eða opinbera markaðnum er eðlilegt að lífeyrisgreiðslur fylgi slíkum hækkunum. Það er ósköp einfaldlega hlutverk okkar í þinginu að tryggja að þeir sem ekki hafa sjálfstæðan samningsrétt heldur þurfa að leita til þingsins um kaup sín og kjör séu ekki skildir eftir ef einhverjir aðrir hópar eru hækkaðir. Við hrunið vorum við almennt þeirrar skoðunar að ekki væri svigrúm til að leiðrétta kjör neitt. Vonandi munu á næstu missirum opnast tækifæri til þess og þá er algjört lykilatriði að öryrkjar og aldraðir fylgi launafólki í kjarabótum.

Hvað varðar óttann við það að heimilin ráði ekki við þetta hefur maður auðvitað alltaf áhyggjur af því í þeim miklu erfiðleikum sem tugþúsundir íslenskra heimila eru að fást við að þau ráði ekki við það sem á þau er lagt. Hér er hins vegar ekki verið að hækka tekjuskattinn, það er ekki verið að hækka virðisaukaskattana. Neysluskattarnir sem hækka eru yfirleitt á vörum sem menn geta að einhverju leyti stýrt eftirspurn sinni eftir. Allur kúfurinn í skattahækkunum var tekinn í fyrra. Heimilin hafa tekist á við hann og hafa sigrast á honum. Þó að það sé auðvitað að sínu leyti áhyggjuefni hversu mikið tekjuskatturinn var á þessu ári undir áætlunum held ég að að öllu öðru leyti hafi í meginatriðum þær aðgerðir gengið eftir og að þetta skref sé svo miklu minna (Forseti hringir.) að það muni ekki ríða baggamuninn.