139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[15:53]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Auðvitað blikka viðvörunarljósin víða í íslensku samfélagi. Ég held að það sé hárrétt hjá hv. þingmanni að helsta áhyggjuefnið um afkomu heimilanna er tekjur heimilanna. Það er rétt sem hv. þingmaður nefnir, þrýstingurinn í vaxtabótunum er að aukast mjög vegna þess að tekjur fólks á yfirstandandi ári eru umtalsvert undir því sem áætlað var. Það endurspeglar einfaldlega minni yfirvinnu og lækkuð laun, m.a. hjá þeim sem eru á hærri launum, og það hefur auðvitað áhrif þegar fólk hefur gert útgjaldaáætlanir í samræmi við meiri tekjur. Það skapar vanda en hér er ekki verið að fara í tekjuskattinn. Hér er ekki verið að hækka virðisaukaskattinn og í fyrra tókst að haga skattahækkunum á tekjuskatt þannig að aðeins þeir báru þær sem hafa hærri tekjur. Breytingar í virðisaukaskatti (Forseti hringir.) voru hverfandi og það tókst að standa vörð um þann lága 7% matarskatt sem hjálpar mörgum heimilum við að kaupa nauðþurftir við þær aðstæður sem við búum við nú við.