139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[15:57]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er stundum eins og hér sé talað úr einhverri draumaveröld. Það stóð einfaldlega ekki til boða að halda áfram í tvö eða þrjú ár þeim hallarekstri sem var á ríkissjóði Það var einfaldlega enginn til í öllum heiminum sem hafði áhuga á því að lána íslensku þjóðinni áfram fyrir því að reka sig með yfir 100 þús. millj. kr. tapi á ríkissjóði á ári. Þess var aldrei kostur. Það var einfaldlega nauðsynlegt að grípa til aðgerða.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur oftsinnis talað fyrir því að best sé að hafa lágar skattprósentur, þá verði tekjurnar svo miklar í framtíðinni og menn muni aldeilis njóta ávaxtanna. En hver er raunin? Hvaða samfélög hrundu í efnahagsfárviðrinu? Ég hygg að þau hafi öll átt það sameiginlegt að hafa verið að keppa á undirboðsmarkaði í sköttum og ég hygg að þau lönd sem hafa haft hærri skatta en þessar paradísir séu einmitt þau ríki sem reyndust vera nógu sterk að innviðum og nógu sterk að tekjustofnum til að standa af sér stormana. Ég held að það sýni ágætlega að lágar prósentur eru ekki uppskrift að gæfu í því að reka eitt samfélag þó að sanngjarnir skattar fyrir atvinnulíf og hvetjandi skattumhverfi til fjárfestingar sé sannarlega mikilvægt, og mikilvægt hvernig hv. þingmaður hefur oft og tíðum talað fyrir því. Ég held að við mættum í okkar stöðu núna gera meira af því að hugsa upp einmitt þannig skapandi leiðir til að hvetja til fjárfestinga en ekki almennt að vera með lágar prósentur sem litlar tekjur gefa í þeirri von (Forseti hringir.) að þær verði einhvern tímann miklar því að sá draumur er bara tálsýn.