139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[16:38]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Ég ætla að byrja á því að segja að gangi það eftir munu ráðstöfunartekjur heimilanna minnka um 8,7 milljarða.

Mig langar hins vegar fyrst að ræða aðeins þá möguleika sem eru í stöðunni. Það segir nefnilega í frumvarpinu að verið sé að reyna:

„að lágmarka það tjón sem niðurskurður á samneyslu veldur hagkerfinu og einnig þau neikvæðu áhrif er tekjuöflunaraðgerðir kunna að hafa“.

Mín skoðun er sú, virðulegi forseti, að seinni hlutinn í þessari setningu blasi við nú þegar. Hér hafa sumir hv. þingmenn haldið því fram að þetta sé bara lítil viðbót skattahækkana miðað við það sem á undan er gengið. Ég vil þó að ítreka að þetta kemur ofan á það sem búið er að gera og veldur heimilunum og fyrirtækjunum enn meiri erfiðleikum.

Við skulum ræða þetta efnislega án þess að deila mjög mikið um hvað sé rétt í skattahækkunum og skattalækkunum. Nú hafa margir haldið því fram að á þeim tímum sem uppgangurinn var sem mestur hafi verið mjög óskynsamlegt að lækka skatta. Það er alveg einkennilegt að sömu aðilar geta ekki viðurkennt að þegar niðursveifla er í hagkerfinu sé mjög óskynsamlegt að hækka skatta en sú staðreynd blasir eiginlega við. Svo geta menn deilt um hvort óumflýjanlegt sé að gera það eða ekki og hvort betra sé að fara í aðrar aðgerðir eins og við sjálfstæðismenn höfum lagt mikla áherslu á, bæði með nýrri þingsályktunartillögu um aðgerðir í efnahagsmálum og skuldavanda heimilanna og fleira og því sem við lögðum fram í fyrra.

Staðreyndirnar hins vegar blasa við okkur. Ef við skoðum þá þróun sem hefur orðið eftir að skattarnir voru hækkaðir svona mikið, ættu að mínu viti ákveðin ljós að blikka hjá hæstv. ríkisstjórn og hv. þingmönnum stjórnarflokkanna. Staðreyndin er sú að skattar á tekjur einstaklinga hafa dregist verulega saman. Ég hef verulegar áhyggjur af því, virðulegi forseti, þegar við skoðum það sem er að gerast í rekstri ríkissjóðs í dag. Þó að viðsnúningurinn hafi verið ágætur kemur hann til af tveimur ástæðum sem eru í báðum tilfellum einskiptisaðgerðir. Það er mjög mikilvægt að hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar geri sér grein fyrir því hvað veldur því að ríkissjóður er að snúa til betri vegar að þessu leyti til.

Það er annars vegar vaxtalækkun upp á um 20 milljarða sem stafar af mjög lágu vaxtastigi í heiminum um þessar mundir. Það er ágætt að halda því til haga af því að nú er aðventan fram undan og sumir farnir að ræða um Icesave. Hluti af því eru u.þ.b. 5–7 milljarðar sem hafa sparast vegna vaxtalækkana. Það er eingöngu út af því að hægar var dregið á gjaldeyrislínurnar og við vorum sett í frost út af því. Fyrir utan alla þá skatta, þá 40 milljarða, sem við spöruðum okkur með því að skrifa ekki undir þennan örlagaríka og handónýta samning sem átti að þvinga okkur til að gera á sínum tíma. Sem betur fer stóð stjórnarandstaðan í vegi fyrir því ásamt öðrum, (Gripið fram í: Forsetanum.) forsetinn og svo á endanum að sjálfsögðu þjóðin.

Hin ástæðan er jöklabréfin. Ef við skoðum nánar uppgjör ríkissjóðs fyrstu níu mánuðina erum við nú þegar í kringum 13 milljörðum yfir áætlun. En við skulum líka athuga að það sem veldur þessari stöðu er að viðskipti fóru fram við seðlabankann í Lúxemborg, svokallað Avens-samkomulag sem var gert í skjóli gjaldeyrishafta, þar sem ríkissjóður keypti svokölluð jöklabréf með miklum afslætti. Það skilaði ríkissjóði 17,5 milljörðum í tekjur í einskiptisaðgerð. Ef við hefðum ekki farið í þessa aðgerð, að kaupa krónubréf í skjóli gjaldeyrishafta, væru tekjur ríkissjóðs í raun og veru um 6 milljörðum undir áætlun fyrstu níu mánuði ársins. Svo koma hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar og segja að skattahækkanirnar hafi bara gengið vel. Það stendur náttúrlega ekki steinn yfir steini í þessari umræðu.

Skatttekjur einstaklinga eftir fyrstu níu mánuði ársins eru núna 6,4 milljörðum undir því sem gert er ráð fyrir í fjárlögum ársins 2010. Það vantar 6,4 milljarða upp á skatttekjurnar. Mér finnst því mjög sérkennilegt að hv. þingmenn geti komið hér upp og sagt að fjölskyldurnar hafi staðist þá þolraun að fá þessar skattahækkanir. Þessar tölur segja okkur svo ekki sé um villst að skattahækkanirnar hafa ekki skilað sér, skattarnir hafa hækkað of mikið. Við erum komin upp fyrir þau mörk sem skynsamlegt er að setja, það segja tölurnar okkur, þrátt fyrir að í forsendum fjárlagafrumvarpsins árið 2010 hafi verið gert ráð fyrir meira atvinnuleysi en raunin er. Samt sem áður eru skattarnir ekki að skila sér.

Til viðbótar er gert ráð fyrir því í frumvarpinu sem við ræðum hér núna að ráðstöfunartekjur heimilanna muni minnka um 8,7 milljarða. Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að mér finnst að þeir sem tala fyrir því að þetta verði samþykkt séu ekki alveg í takt við það sem er að gerast í veruleikanum. Ég tel að heimilin í landinu séu þegar allt of mikið skattpínd og ekki megi fara í frekari aðgerðir þó svo að menn leyfi sér að tala um að þetta sé nú ekki mikið miðað við það sem á undan er gengið. En þetta er algjörlega að sliga heimilin í landinu. Og þegar við vorum að ræða fjáraukalögin hér fyrir nokkrum dögum, hvað kom þá í ljós? Það þarf að bæta inn 1,8 milljörðum í vaxtabætur í fjáraukalögin, aðallega vegna tekjumissis heimilanna. Ráðstöfunartekjur heimilanna voru miklu, miklu minni. Við verðum að horfast í augu við þetta og hætta að stinga hausnum í sandinn. Við þurfum að átta okkur á því að heimilin þola ekki meiri álögur.

Til viðbótar er alls staðar verið að hækka álögur, leynt og ljóst. Það eru mörg dæmi í fjárlagafrumvarpinu um að hækka enn frekar skatta á fyrirtækin. Eitt sem kemur til að mynda upp í huga mér er Fiskistofa. Þó svo að hún sæti 6,6% niðurskurði fær hún heimild til að ná 30% af niðurskurðinum til baka með því að afla sér sértekna og hækka álögurnar á atvinnulífið. Það er því alls staðar verið að hækka, leynt og ljóst. Það er alveg ótrúlegt að menn skuli ekki átta sig á hvað þetta þýðir.

Eins og ég sagði áðan, menn gera lítið úr þessu og segja að þetta sé smáviðbót ofan á það sem búið er að gera. Þessar ráðstafanir þýða engu að síður að ráðstöfunartekjur heimilanna dragast saman um 8,7 milljarða. Mér þykir það mikið, ég verð að viðurkenna það, virðulegi forseti.

Síðan eru það allir aðrir skattar eða svokallaðir krónutöluskattar, eins og hæstv. ráðherra kallaði þá hér áðan. Þeir eru látnir fylgja verðlagsþróun, þ.e. hækka um 4% út af verðlagsþróun til að rétta af á núvirði miðað við það sem var í upphafi árs. En þegar kemur að því að hækka lífeyrinn hjá öryrkjum og ellilífeyrisþegum þá hækkar hann ekki samkvæmt verðlagsþróun. Það þýðir nú bara 6 milljarða. Hvað gerir ríkisstjórnin á sama tíma í fjárlögunum? Þar er til viðbótar dregið úr niðurgreiðslum á húshitunarkostnaði úti á landsbyggðinni. Það gerir að verkum að fólk sem býr úti á landsbyggðinni þarf að greiða 555 þús. kr. á ári fyrir venjulegt einbýlishús á meðan íbúar í Reykjavík þurfa að greiða í kringum 40% af því. Það eru staðreyndir málsins hvort sem okkur líkar betur eða verr. Ég held að mjög mikilvægt sé að hæstv. ríkisstjórn fari að gera sér grein fyrir því að mjög margir ellilífeyrisþegar eru að lenda í fátæktargildrum og það er mjög alvarleg þróun.

Síðan kemur hæstv. ríkisstjórn og allir hennar talsmenn í þessum málum, sem eru nú ekki margir og enginn í salnum nema einn eða tveir frammi í hliðarherbergjum — (BJJ: Ég er hérna.) Þú ert ekki í ríkisstjórnarflokkunum, hv. þm. Birkir Jón Jónsson, alla vega ekki enn þá svo ég viti, það er þá nýbúið að breyta því. Ég sé hins vegar tvo hv. aðra þingmenn en ég vissi ekki að búið væri að setja Framsóknarflokkinn í stjórn, það er einhver smámisskilningur. Það er kannski von hv. þingmanns að komast í ríkisstjórn. (Gripið fram í.)

Hv. þingmaður sem er í stjórnarliði segir að verið sé að hlífa þeim sem lægst launin hafa og fluttar eru margar ræður um að gera þetta með þessum hætti en síðan eru skattleysismörkin ekki hækkuð gagnvart verðlagi. Það þýðir í raun og veru 8 milljarða fyrir ríkissjóð. Það gefur auga leið að þegar menn tala um að láta verðlagsþróunina fylgja á einum stað þá fylgir hún ekki á öðrum stöðum.

Síðan kemur í ljós að þótt menn séu að reyna að hækka minnst þá skatta sem hafa áhrif á vísitöluna þá mun vísitalan hækka um sirka 0,2% eða óverulega eins og hæstv. fjármálaráðherra sagði. Það þýðir eigi að síður að skuldir heimilanna munu hækka um 2–2,5 milljarða út af þessu, bara út af þessu eina atriði, og það eru stórar tölur, þó svo að menn séu að reyna að vanda sig og hækka ekki þá skatta sem hafa bein áhrif á hækkun húsnæðislána. Virðulegi forseti. Þá er ekki nema von að menn spyrji: Hvað er til ráða þegar svona er komið til að menn snúi af þessari braut?

Svo ég gleymi nú ekki að nefna eitt undir lok ræðu minnar en það eru húsaleigubæturnar. Í fjárlagafrumvarpinu er lagt til, og það er ekki breyting á því hér, að húsaleigubætur eða sérstakar húsaleigubætur sem ríkið hefur greitt muni minnka um 600 milljónir eða 556 milljónir nákvæmlega. Það er grafalvarlegt mál, sérstaklega í ljósi þess að um 80% af þeim sem fá húsaleigubætur í dag eru með tekjur undir 2 milljónum á ári. Það er furðulegt að ráðist skuli vera á þann hóp sem er með svo lágar tekjur.

Virðulegi forseti. Það sem við sjálfstæðismenn höfum lagt áherslu á, bæði núna og í fyrra, er að fara aðrar leiðir. Það gefur auga leið að stækka þarf kökuna. Það verður að framleiða hér meira því að við komumst ekki út úr kreppunni með niðurskurði né heldur með skattlagningu, við verðum að stækka kökuna. Sem betur fer er Ísland ríkt land og stendur mikið betur en mörg önnur lönd — eins og t.d. Írland svo ég nefni það — því við höfum nefnilega auðlindir sem við getum nýtt. Við getum virkjað meira, við gætum bætt við veiðiheimildir, svo ég nefni tvennt. Við töluðum fyrir því á síðasta þingi og ég man ekki hvað ég hélt margar ræður um það í fyrra að bæta við þorskkvótann. Ég lagði til að við mundum bæta 40 þús. tonnum við þorskkvótann. Hvað þýddi það? Það þýddi að við vorum samt sem áður að byggja upp stofninn. Ég notaði eingöngu tölur frá Hafrannsóknastofnun, ég var ekkert að búa mér til meira svigrúm en það. Þorskstofninn var áætlaður 702 þús. tonn og við áætluðum að byggja hann upp í 762 þús. tonn miðað við 150 þús. tonna úthlutun og þá nýtingarstefnu sem við rákum í fyrra.

Hefði Alþingi samþykkt í fyrra að auka veiðiheimildir í þorski um 40 þús. tonn hefðum við samkvæmt gögnum Hafrannsóknastofnunar byggt þorskstofninn úr 702 þús. tonnum upp í 718 þús. tonn. Að mínu viti er það ásættanlegt við þessi skilyrði því ef við þurfum ekki atvinnu núna, hvenær þurfum við hana þá? Núna þurfum við að skapa verðmæti með allt þetta fólk atvinnulaust. Ég hélt því margoft fram í ræðum mínum að ég teldi svigrúmið reyndar vera meira en ég vildi hins vegar notast við tölulegar staðreyndir frá Hafrannsóknastofnun. Og hvað kom síðan í ljós? Eins og margir sjómenn höfðu bent á var þorskgengd miklu meiri en rannsóknir Hafrannsóknastofnunar höfðu sýnt. Þetta var síðan leiðrétt og skekkjan sem sjómenn höfðu bent á kom til viðbótar í rallinu hjá Hafrannsóknastofnun í vor. Þá reyndist þorskstofninn nefnilega vera 846 þús. tonn en ekki 762 þús. tonn eins og við áætluðum. Þessa skekkju höfðu sjómenn verið búnir að benda á lengi.

Við teljum þess vegna skynsamlegt, virðulegi forseti, að menn ræði það af alvöru að bæta við tekjur ríkissjóðs og reyna að hlífa eins og hægt er í skattahækkunum. Það má ekki gera meira. Bara það eitt að ætla að minnka ráðstöfunartekjur heimilanna um 8,7 milljarða ofan á allt sem á undan er gengið og við þær aðstæður sem nú eru uppi, án þess að gefa fólkinu einhverja von, gerir mig býsna hræddan við ástandið fram undan. Ég ætla hins vegar ekki að tala það niður en ég tel mjög mikilvægt að við ræðum þetta í ljósi staðreyndanna sem við okkur blasa. Skatttekjurnar á einstaklingana eru ekki að skila sér heldur eru það einskiptisaðgerðir sem eru að rétta ríkissjóð af fyrstu níu mánuði ársins — sem betur fer, ég fagna því að sjálfsögðu. Við verðum hins vegar að horfa á heildarmyndina þannig að við búum okkur ekki til falsvonir um að þetta geti gengið hér eftir sem hingað til. Það sem síðan á að laga stöðu ríkissjóðs núna eru 20 milljarðar í vaxtalækkun en það stafar til að mynda af (Forseti hringir.) mjög lágu vaxtastigi í heiminum um þessar mundir.