139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[16:54]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að mikilvægt sé að hafa hið rétta uppi í umræðunni og auðvitað er það þannig að tekjuhliðin er að ganga upp í öllum meginatriðum á yfirstandandi ári. Þó að frávikin séu óþægilega mikil í tekjuskattinum er það þó lágt hlutfall af heildartekjunum og aðrir þættir vinna það upp og raunar þrefalt það og á betri veg en menn hugðu.

Ég vil hins vegar þakka hv. þingmanni fyrir að nefna skattleysismörkin af því að það er alveg rétt hjá honum að þau sitja föst. Það hefði að vísu ekki kostað 8 milljarða að hækka þau um verðlagsþróunina heldur miklu lægri fjárhæðir. Þegar menn tala um 8 milljarða gera þeir ráð fyrir að fyrirheit sem voru gefin í góðærinu um að bæta upp rýrnun skattleysismarkanna síðastliðin 20 ár væru einnig efnd. Ég held að það sé klárlega óraunsætt að hægt sé að gera það á erfiðustu árum í afkomu ríkissjóðs. Á einhverjum tímapunkti er þó algjörlega nauðsynlegt að láta skattleysismörkin fylgja verðlagsþróun. Ég held að það hljóti að vera eitt af því sem menn ræða í kjarasamningum sem fram undan eru og menn standi vörð um kjör þeirra lægst launuðu með því að reyna að beita hlutum eins og skattleysismörkum.