139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[17:02]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum, oft og tíðum eitt veigamesta frumvarp þingsins og er það í þetta skipti líka og er því óskiljanlegt það áhugaleysi sem hv. þingmenn sýna þessu máli. Í frumvarpinu kristallast í rauninni hugmyndafræði þeirrar ríkisstjórnar sem að þessu stendur, sem er vinstri stjórn. Það er eðlilegt og maður hlýtur að taka því þannig. Frumvarpið liti allt öðruvísi út ef um væri að ræða annars konar ríkisstjórn og það er kannski það sem gefur tilefni til að fara að huga að því hvort ekki ætti fara að skipta um ríkisstjórn.

Hér er lagt til að hækka skatta. Það er hefðbundið úrræði vinstri manna, þeir átta sig yfirleitt ekki á því að skattstofninn verður fyrir áhrifum af skattinum. Það er svona eins og hross sem maður leggur of miklar byrðar á, það hægir á því og það sígur niður. Svo getur það gerst allt í einu þegar búið er að leggja of miklar byrðar á hrossið — þeir sem þekkja það — að það kiknar í hnjáliðunum og þá fer það ekkert lengra. Þetta er það sem menn hafa ekki áttað sig á og eru voðalega hissa þegar skattstofnarnir draga saman. Þetta er svona austur-þýsk hagfræði.

Svo þarf að segja upp líka, það þarf að skera niður sem er í sjálfu sér eðlilegt. Ég tel að það hafi verið ein mestu mistök Sjálfstæðisflokksins í 12 ára valdatíð hans eða 18 ára að láta undan þeim flokkum sem við vorum með í ríkisstjórn — þó að sumir haldi því fram að við höfum verið einir í ríkisstjórn vorum við það nú ekki — að láta undan með gífurlegan vöxt velferðarkerfisins. Það óx sem aldrei fyrr. Og því má segja að Sjálfstæðisflokkurinn hafi í raun og veru verið velferðarflokkur, velferðarkerfið óx um 4% að raunvexti á hverju ári. Ég var með tölurnar um daginn en þetta velferðarkerfi óx umfram alla aðra mælikvarða, hvort sem við notum verðlag eða þjóðarframleiðslu eða hvað það nú er.

Nú þarf að segja upp fólki, minnka velferðarkerfið og það væri fínt og í sjálfu sér ágætt, frú forseti, frá mínu sjónarhorni ef til væru störf handa þessu fólki, það væri ágætt, en það eru ekki til störf. Fólkið sem var sagt upp hjá Orkuveitu Reykjavíkur fer ekkert í rífandi störf út um allt, 65 manns og algjör tilviljun hverjum var sagt upp. Þetta er forsendubresturinn sem enginn vill horfa á. Það þarf að segja upp fólki hjá Landspítalanum – háskólasjúkrahúsi á næsta ári og það fólk hefur í engin störf að fara. Það eru nefnilega engin störf til, það er vandamál núverandi ríkisstjórnar.

Það er engin lausn í sjálfu sér að skera niður þar sem 75% af ríkisútgjöldum eru laun og það verður því að segja fólki upp, það er ekki hægt annað. Því fólki sem er sagt upp, það fer í rauninni á atvinnuleysisbætur hjá þessu sama ríki fyrir utan mannlega harmleikinn, frú forseti, sem felst í því að vera atvinnulaus. Ég held að menn ættu að fara að skoða það fólk sem búið er að vera langtímaatvinnulaust sem eru bara allt að því skelfileg örlög þess fólks. Það er að mínu mati þessari vinstri stjórn að kenna sem hefur barist gegn öllum aðgerðum í að auka atvinnu.

Það sem menn geta gert, og það höfum við sjálfstæðismenn bent á aftur og aftur, er að ríkið getur selt eignir eða náð í þær eignir sem það á. Til dæmis á ríkið óskattað fé hjá séreignarsjóðunum upp á 80 milljarða. Ríkið gæti náð í þessa eign sína. Það er ekki brunaútsala því að þessi eign er þarna og hún minnkar ekkert í virði við það að ríkið nær henni til sín og notar hana til að minnka skattálögur á heimilin þannig að heimilin geti aftur farið að líta glaðan dag, og sérstaklega skattálögur á fyrirtæki sem sannarlega hafa minnkað atvinnuna.

Svo má líka auka kvótann eins og ég benti á áðan án þess í rauninni að eyðileggja framtíðareignina, hún er bara minnkuð örlítið, hún vex ekki eins hratt. Þetta finnst mér alveg sjálfsagt. Ekkert er mikilvægara en atvinna núna, ekki atvinna eftir 10 ár eða 20 ár, það er atvinnan núna sem skiptir mestu máli. Ef við komumst yfir þennan hjall, hindrum að þetta hrynji saman eins og hrossið sem búið er að hlaða of mikið á kiknar í hnjáliðunum, komum við í veg fyrir að atvinna flytjist úr landi og við höfum ekkert lengur til að skattleggja.

Svo mætti virkja, það mætti virkja og alveg sérstaklega vatnsaflsvirkjanir. Það er talið að gufuaflsvirkjanir séu eitthvað sem er endanlegt. Það er reyndar ekki alveg ljóst ef við förum í djúpboranir, en allt í lagi, þær eru endanlegar í einhverjum skilningi. En vatnsaflið er ekki endanlegt, hvert einasta tonn sem rennur niður fossana óvirkjað kemur aldrei aftur. Það er glatað að eilífu. Vatnsaflsvirkjanir eru ekkert annað en auðlegð sem við erum að glata með því að virkja ekki.

Svo er núna nýjasta hugmyndin að skipta Landsvirkjun upp í þrennt og selja kannski einn partinn eða tvo eða þrjá. Það gæti gert það að verkum að ríkissjóður yrði skuldlaus og þyrfti ekki þessa gífurlegu skattlagningu á atvinnulífið og heimilin eins og hér er stefnt að.

Það er nefnilega þannig, frú forseti, að skattlagning hefur áhrif. Það hafa tapast 22 þúsund störf. Hvert skyldi það fólk hafa farið sem sinnti þeim störfum? Á síðasta ársfjórðungi fóru 800 manns út á 90 dögum, á þremur mánuðum. Það eru u.þ.b. 10 manns á dag, Íslendingar, ekki útlendingar. Þetta er blóðtaka og hættan er sú að þetta fólk komi ekki aftur til baka. Menntunin og frumkvæðið og dugnaðurinn sem þetta fólk ber með sér fer og kemur ekki aftur. Það er mikil hætta á því.

Svo hafa margir orðið atvinnulausir. Það er alveg skelfilegt, það eru bara örlög og fólk brotnar niður og mjög margir verða öryrkjar í kjölfarið. Það er eitthvað sem menn þurfa að horfa á. Svo er það nám, margir hafa farið í nám. Þetta eru eiginlega þær þrjár leiðir sem það fólk fer sem sinnti þessum 22 þúsund störfum. Það er í sjálfu sér ágætt að menn fari í nám því að það eykur þá verðmæti og eykur mannauðinn.

Hér hefur verið talað um að það sé verið að hlífa lægstu launum. Útvarpsgjaldið, sem er reyndar ekki stór hækkun, 900 kr. eða 800 kr., lendir verst á þeim sem hafa lægstu tekjurnar. Þar munar um það. En það munar ekkert um útvarpsgjaldið hjá þeim sem hafa hærri tekjurnar. Það er sama tala fyrir hvern einasta mann.

Bensínið. Lágtekjufólk þarf líka að keyra í vinnu, þarf að fara hingað og þangað á bílnum sínum. Þetta er bein skattlagning og kemur jafnþungt niður á þeim sem eru tekjulágir og þeim sem eru tekjuháir, þannig að allt tal um að þetta komi ekki niður á lágtekjufólki er ekki rétt.

Svo er sturtuskatturinn, eða ætlast menn til þess að fátækt fólk eða tekjulágt fari ekki í sturtu? Auðvitað fer tekjulágt fólk líka í sturtu. Það er að verið að hækka þetta. Þetta er því ekki rétt að það séu engar skattlagningar á lágtekjufólk.

Svo er það skattlagning á heimili almennt. Það er nú kannski rétt að fara í gegnum það. Fjármagnstekjuskattur, hver skyldi nú borga hann yfirleitt, frú forseti? Það er fólk sem á fjármagn, sem á sparifé öðru nafni eða sparisjóðsbækur þriðja nafni. Fjármagnseigendur eru nefnilega alltaf heimilin. Og þeir sem eiga fjármuni í gegnum lífeyrissjóðina eru ekkert annað en heimilin. Þar eru 15 milljónir á hvert einasta heimili í landinu. Fjármagnstekjuskatturinn er því ekkert annað en skattur á heimili, sérstaklega á eldri heimili og fólk sem hefur sýnt ráðdeild og sparnað í gegnum tíðina og á smáaura upp á að hlaupa, sem því miður allt, allt of fáir gera á Íslandi. Hér er verið að auka skatta á það svo það hætti þeirri vitleysu að leggja fyrir.

Tekjuskattur lögaðila. Það er eitthvað sem kemur niður á atvinnu og eins skattur á hagnað fyrirtækja. Það er eins og ríkisstjórninni sé illa við það að fyrirtæki fjárfesti og skapi atvinnu. Fyrir utan það sem hún lagði á áður, tryggingagjaldið, sem reyndar verður ekki hækkað aftur, guði sé lof, en það er búið að hækka það nóg, því að tryggingagjald er ekkert annað en skattur á atvinnu. Ef maður fer yfir þær skattahækkanir sem þessi vinstri stjórn hefur farið í gegnum þá er eins og henni sé meinilla við atvinnu. Samt er atvinna einmitt það sem við þurfum mest af öllu.

Auðlegðarskatturinn. Það hafði samband við mig maður með tölvupósti og kvartaði undan því að hann byggi nú í blokk og hann ætti ekki jeppa, hefði aldrei keyrt svoleiðis fyrirbæri, ætti ódýra Toyotu, gamla. Hann hefur sparað og er ráðdeildarsamur, það sem sumir kalla að nurla eða vera nískur, nískupúki. Hann er búinn að vera ráðdeildarsamur í gegnum tíðina og nú á að fara að leggja á hann skatt og þess vegna er hann fúll yfir því að verið sé að skattleggja sparsemina og ráðdeildarsemina og ætlar sem sagt að huga að því hvort hann láti af þessum ósið að vera að leggja fyrir. Það er nefnilega þannig að auðlegðarskatturinn leggst á fólk sem hefur lagt fyrir en kannski líka á einhverja einstaka útrásarvíkinga, ég ætla ekki að útiloka það.

Það sem hugsanlega gerist og mér finnst að hæstv. ríkisstjórn — ráðherra er reyndar ekki við, hann fréttir kannski af þessu einhvern tímann — ætti að láta kanna er hversu margir af þeim sem greiddu auðlegðarskatt í fyrra búa ekki lengur á landinu, því að það er svo auðvelt fyrir menn að skipta um heimilisfang. Þeir þurfa að vera minna en 180 daga á Íslandi, það er hægt að eyða þeim tíma á Kanarí eða einhvers staðar, og þar með eru menn komnir með skattfesti annars staðar. Þá fer ekki bara auðlegðarskatturinn, þá fara allir aðrir skattar sem menn hafa af öðrum eignum og allt sem þeir borga í skatt á Íslandi. Þetta er nefnilega ein tegund fólksflutninga sem getur átt sér stað líka. (Gripið fram í.)

Vörugjald á áfengi og tóbak. Auðvitað getur maður sagt að lágtekjufólk eigi ekki að drekka brennivín en kannski gerir það einn og einn.

Kolefnisgjald. Ég var búinn að nefna sturtugjaldið. Vörugjöld á bifreiðar og bifreiðagjald. Þetta er náttúrlega á bílinn sem menn ætla að kaupa. Og sérstakur skattur á fjármálastofnanir. Það er væntanlega það eina sem ekki kemur beint við heimilin. Það er reiknað með að það gefi milljarð.

Svo er farið í fleira. Það á að skerða bætur, vaxtabætur, það á að hækka prósentuna en það er ekki snert við eignamörkunum, frú forseti. Það er dálítið athyglisvert. Eignamörkunum sem eru mjög há. Þar getur fólk verið með 10 milljónir í nettóeignir og samt fengið vaxtabætur. Það á ekki að snerta við því en það á hækka prósentur af tekjum. Það þýðir að fátæktargildran, jaðarskattarnir vaxa enn frekar. Það á líka að hækka á börn, barnafjölskyldur, það er orðin fátæktargildra þar líka. Skattarnir, jaðarskattarnir, vaxa stöðugt undir leiðsögn þessarar ríkisstjórnar.

Það er ekki þannig að það sé allt svart á Íslandi, langt í frá. Lagður var mjög góður grunnur að atvinnulífinu undir 18 ára stjórn Sjálfstæðisflokksins. Já, það þýðir ekkert að hlæja yfir því. Kárahnjúkavirkjun, sem núna stendur undir, að mati hæstv. fjármálaráðherra, auðlegð Íslands og stendur undir útflutningi (Gripið fram í.) — þetta er gullkvörn og stendur undir meginþunganum af útflutningstekjunum.

Útgerðin stendur vel. Ferðaþjónustan stendur líka vel. Það er góður grunnur undir þessu og þökk sé krónunni, sem margir vilja bölva, hafa þessar greinar farið á flug. Þær standa undir því að nú er afgangur af vöruskiptajöfnuði í hverjum einasta mánuði. Afskaplega jákvætt og afskaplega ánægjulegt, því að það þýðir það að Íslendingar eru að minnka skuldir sínar við útlönd sem eru allt, allt of miklar.

Mér finnst bjart yfir framtíðinni. Ég mundi vilja sjá bjartsýni og framtíðarsýn og jákvæðar lausnir en ekki svona neikvæðar þar sem hugmyndafræðin á bak við þetta frumvarp felst í rauninni í því að skattleggja, skattleggja, skattleggja og ná í tekjur af síminnkandi skattstofni. Ég óttast það í raunveruleikanum að við séum að stefna í stöðnun sem getur varað í áratugi.