139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[17:17]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og hugleiðingar hans um skattamál sem við ræðum hér og auknar álögur á heimili og fyrirtækin í landinu. Það sem hv. þingmaður kom að síðast í ræðu sinni voru þau tækifæri sem við höfum í dag til að vinna okkur hraðar út úr kreppunni. Ég mundi gjarnan vilja heyra hv. þingmann fara aðeins betur í það og gera athugasemdir við þær hugleiðingar mínar sem ég hef varðandi stefnu ríkisstjórnarinnar í skattamálum.

Tekin hafa verið viðtöl við sérfræðinga sem eiga fjármuni og hafa viljað fjárfesta hér á landi. Ef þeir eru spurðir hver helsti dragbíturinn sé á fjárfestingu hér á landi svara þeir að það sé í fyrsta lagi flókið skattkerfi sem sé ógegnsætt, að búið sé að flækja skattkerfið á mettíma á rétt rúmu ári þannig að nú kippi menn að sér höndunum gagnvart erlendri fjárfestingu hér á landi.

Í öðru lagi, þegar við köllum eftir fjárfestingu í íslensku atvinnulífi, fjölgun starfa og aukinni verðmætasköpun til þess að forðast skattahækkanir og niðurskurð, tala menn um viðhorf ríkisstjórnarinnar og þá kannski annars stjórnarflokksins gagnvart erlendri fjárfestingu, sérstaklega í orkuiðnaði.

Það væri gaman að heyra hv. þingmann fara aðeins yfir þessa tvo þætti, annars vegar ógagnsætt og flókið skattkerfi og hins vegar andstöðu innan ríkisstjórnarinnar við fjárfestingu í orkufrekum iðnaði, við erlenda fjárfestingu, hvað það hafi skaðað okkur tekjulega séð og hvort ekki geti verið um að ræða miklu minni samdrátt í útgjöldum hins opinbera og miklu minni skattahækkanir en við þurfum að fjalla um hér.