139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[17:23]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að verið er að auka álögur með því að hækka ekki sérstaklega persónuafsláttinn. Þær álögur lenda hlutfallslega þyngst á þeim sem lægstar hafa tekjurnar, það er þannig. Tekjuhátt fólk munar ekkert um þann 2 eða 3 þúsundkall sem persónuafslátturinn hækkar ekki um á mánuði. Það er reyndar búið að gerast í tvö, þrjú ár, þannig að það er miklu hærri tala. Þá, sem hafa hæstu tekjurnar, munar ekkert voðalega mikið um þá þúsundkalla sem persónuafslátturinn ætti að hafa hækkað en þá munar aldeilis um það sem lægstar hafa tekjurnar. Persónuafslátturinn er nefnilega lágtekjuvörn.

Svo er verið að hvetja fólk til að taka út og eyðileggja sparnaðinn í séreignarsjóðunum, sem er öndvert við það sem Sjálfstæðisflokkurinn lagði til, þ.e. að ná í eignina eða skattlagninguna en hreyfa ekki við sparnaðinum sjálfum. Það er mikill munur á því hvort heimilin eigi áfram þann sparnað eða hvort hann sé rifinn út til þess að geta lifað af skattlagningu heimilanna. Þá vilja þeir ná í sparnað, hann er hugsaður til þess að láta fólk borga skatta. Það er því verið að eyðileggja séreignarsparnaðinn til að menn geti borgað skattana.

Ég undirstrika að það eru til aðrar lausnir sem eru miklu betri. Það eru til lausnir sem lokka fólk aftur til landsins en hrekja það ekki til útlanda eins og hér er lagt til.

Ég vil enda ræðu mína á frekar jákvæðum nótum. Við Íslendingar höfum alla möguleika til að vinna okkur tiltölulega hratt út úr kreppunni, annars vegar með því að ganga á þær eignir sem við eigum sem ríkissjóður á og hins vegar með því að selja eignir sem geta gefið okkur það mikla peninga í ríkissjóð að við þurfum ekki að hækka skatta svona mikið, við getum jafnvel tekið allar skattahækkanirnar til baka í tvö eða þrjú ár. Það dugar atvinnulífinu og heimilunum til þess að geta borgað hærri skatta eftir það.