139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[17:32]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs öðru sinni í þessari umræðu til að ræða nokkra hluti sem mér finnst standa út af. Það er rétt sem fram kom í máli hv. síðasta ræðumanns, hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar, að undir þessu frumvarpi erum við að ræða fjölmörg mál og ekkert endilega alltaf samkynja. Þarna er því um að ræða breytingar sem í mörgum tilvikum gæfu tilefni til mjög ítarlegrar umræðu hver fyrir sig. Hægt væri að taka sérstaka umræðu um hækkanir á fjármagnstekjuskatti, sérstaka umræðu um hækkun á tekjuskatti fyrirtækja, sérstaka umræðu um þær hækkanir sem lúta að gjöldum á bifreiðar og eldsneyti og þannig má lengi telja. Þegar við ræðum þessi mál er nauðsynlegt að stytta það og ég vænti þess að hv. efnahags- og viðskiptanefnd fari ítarlega yfir þessa þætti í málsmeðferð sinni og okkur gefist kostur á að taka þetta til nánari umræðu við 2. og 3. umr. Ég held að fullt tilefni sé til, bæði út frá einstökum þáttum í þessu, eins og ég hef hér nefnt, en líka út frá almennri skattstefnu ríkisstjórnarinnar.

Það eru örfá atriði sem ég vildi kannski spyrja hæstv. fjármálaráðherra um ef hann á þess kost að koma upp í lokaræðu hér á eftir, nokkur tiltekin atriði í þessu og í tengslum við þetta. Ég vil í fyrsta lagi inna hæstv. fjármálaráðherra eftir því hvort það sé réttur skilningur hjá mér að þau frumvörp sem þegar hafa verið lögð fram hér í þinginu og varða tekjuöflun ríkisins séu öll komin fram eða hvort von sé á fleirum. Ég nefni þetta sérstaklega í tengslum við þá spurningu hvort vænta megi sérstaks frumvarps um breytingar eða hækkun á aukatekjum ríkissjóðs sem mér finnst ég hafa heyrt í umræðu en hef ekki séð enn. Ef um er að ræða fleiri frumvörp sem fela í sér aukna tekjuöflun væri það gott umræðunnar vegna ef hæstv. ráðherra mundi geta þess, en ég skildi hann svo að þetta væri meira og minna allt komið.

Í annan stað vildi ég inna hæstv. ráðherra aðeins nánar eftir því sem lýtur að mati ráðuneytisins á áhrifum á kaupmátt ráðstöfunartekna. Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson hefur nú þegar vikið nokkuð að því út frá því að í greinargerð með frumvarpinu er gert ráð fyrir að áhrif á kaupmátt verði 0,5% þegar málið er skoðað heildstætt eða þegar auknar tekjur eru skoðaðar. Ég er að velta fyrir mér hvort ráðuneytið hefur látið reikna út eða hvort hæstv. ráðherra hefur undir höndum upplýsingar um það hver áhrifin eru í prósentum talið ef líka er tekið tillit til áhrifa þess að frysta persónuafsláttinn, en fram hefur komið að stefna stjórnarinnar er að persónuafslátturinn muni ekki hækka á næsta ári. Að gefnum þeim forsendum að hér verði um einhverja verðbólgu að ræða, þó vonandi ekki mikla, hlýtur það að hafa áhrif á kaupmátt ráðstöfunartekna og það væri forvitnilegt umræðunnar vegna ef hæstv. ráðherra gæti upplýst okkur um það hvort það hefði verið metið hjá ráðuneytinu.

Ég velti líka fyrir mér, í sambandi við nákvæmlega þetta, áhrifunum á kaupmátt ráðstöfunartekna, hvort hæstv. ráðherra getur upplýst okkur um það hver áhrif skattbreytingarinnar í frumvarpinu eru í prósentum talið ef ekki er reiknað með aukinni úttekt séreignarsparnaðar, sem mér finnst eins og hv. þm. Ásbirni Óttarssyni vera svolítið annars eðlis en þarna um ræðir. Fólk er þá að ganga á eign sína þannig að mér finnst villandi að taka það með í þessa úttekt.

Ég vil að lokum nefna það hvort (Forseti hringir.) ráðuneytið hefði metið heildstætt áhrif skattbreytinga sem ákveðnar hafa verið á undanförnu einu og hálfa ári á kaupmátt.