139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[17:47]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að koma inn á nokkra hluti sem ég náði ekki að koma inn á í fyrri ræðu minni. Fyrst vil ég þó ítreka og taka undir það sem hv. þm. Bjarni Benediktsson ræddi áðan í sinni ræðu, það er enn verið að auka álögurnar á fjölskyldurnar í landinu. Þetta frumvarp þýðir að ráðstöfunartekjur fjölskyldunnar munu minnka um 8,7 milljarða kr. Mín skoðun er, eins og margra annarra hv. þingmanna, að fjölskyldurnar í landinu þoli ekki frekari álögur.

Ég verð að viðurkenna, virðulegi forseti, af því að við erum að ræða þetta í sambandi við fjárlögin að ég er ansi hræddur við þau drög að frumvarpi sem við erum með sem þegar er búið að boða fullt af breytingum við sem ég veit ekki hverjar eru, m.a. hvað varðar heilbrigðisþjónustuna. Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur gefið það í skyn í fjölmiðlum að hann muni rétta suma af og aðra ekki og ég átta mig ekki á því hvort menn munu koma með frekari útgjaldaleið til heilbrigðismálanna eða hvort það verði tilfærsla innan geirans. Það er nú því miður þannig.

Síðan er ágætt að rifja hér upp að hagvaxtarforsenduspáin fyrir fjárlögin er yfir 3%. Við eigum von á nýrri hagvaxtarspá vonandi í næstu viku. Hún átti reyndar að koma í byrjun þessarar viku. Þær spár sem hafa birst á eftir þeirri spá sem við byggjum frumvarpið á eru í allt aðra veru. Þar er talað um u.þ.b. 2% hagvöxt. Þess vegna er enn þá mikilvægara að við förum að skapa hér störf til að fólk geti unnið sig út úr þessari kreppu.

Ég er ansi hræddur um að bæði gjaldahliðin og tekjuhliðin á fjárlagafrumvarpinu muni ekki standast, því miður. Það hefur reyndar komið fram hjá mörgum hv. stjórnarþingmönnum, sem er alveg furðulegt, sem virðast ætla að láta hæstv. fjármálaráðherra sitja einan uppi með gjörninginn. Þeir hlaupa frá þessu á harðahlaupum hvar sem til þeirra næst. Á opnum fundum með fulltrúum sveitarfélaganna og sveitarstjórnanna og á þingmannafundum í Norðvesturkjördæmi hlupu allir frá þessu, þeir höfðu aldrei séð þetta frekar en ég veit ekki hvað og ætla að láta hæstv. ráðherra sitja uppi með gjörninginn sem mér þykir ekki stórmannlegt.

Ég veit að hæstv. fjármálaráðherra á eftir að koma hér upp í lokin og því langar mig að beina til hans þeirri spurningu — vegna þess að nú er mjög mikilvægt að menn fari varlega með féð — hvort hæstv. fjármálaráðherra hafi verið kunnugt um þá ákvörðun Jóns Bjarnasonar að taka rækjuveiðar út úr kvóta. Það hafði í raun og veru einungis í för með sér kostnað fyrir Byggðastofnun upp á um 700 millj. kr. sem hæstv. iðnaðarráðherra hefur staðfest hér. Hæstv. iðnaðarráðherra vissi ekki af þessari ákvörðun hæstv. sjávarútvegsráðherra, en eigi að síður virðist þetta vera tekið með þeim hætti að þegar hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra vaknaði einn morguninn ákvað hann bara að gera þetta. Því vil ég beina því sérstaklega til hæstv. fjármálaráðherra og vil að hann svari því mjög skýrt og skorinort hvort hæstv. fjármálaráðherra hafi verið kunnugt um þessa ákvörðun hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra áður en hann ákvað að gera þetta með þessum hætti sem kostar ríkissjóð 700 millj. kr., þar af leiðandi skattgreiðendur þessa lands. Það hefði verið skynsamlegra að gera einhverjar aðrar ráðstafanir en þessar.

Fyrri ræðumenn, m.a. hv. þm. Birkir Jón Jónsson, hafa komið inn á skattahækkanir á olíu og bensín sem hafa töluverð áhrif á fólk sem býr á landsbyggðinni og á ekki kost á að nýta sér almenningssamgöngur — ég þarf ekki að fara yfir það allt saman hér — og þarf oft að keyra langar leiðir í vinnu.

Svo er húshitunarkostnaður sem ég fór inn á í fyrri ræðu minni. Menn virðist einhvern veginn ekki hugsa málið alveg til enda. Því til viðbótar er mjög alvarlegur galli í frumvarpinu sem er Jöfnunarsjóður sveitarfélaga. Þar vantar inn í að mínu viti um 3 milljarða kr. miðað við það sem þarf að vera að lágmarki. Tekjur sveitarfélaganna munu dragast saman um 8 milljarða kr. á næsta ári ef þetta gengur eftir og það er grafalvarleg staða hjá mörgum sveitarfélögum. Því miður virðumst við ekki hafa lært mikið af þessu hörmulega hruni því að við virðumst oft og tíðum ekki vilja horfast í augu við veruleikann. Þar gætu gerst mjög alvarlegir hlutir og menn geta þá ekki sagt að þeir hafi ekki verið varaðir við að þurfa að grípa til og styðja sveitarfélögin í staðinn fyrir að leggja auknar álögur á þau og hirða frá þeim tekjustofna.